Ef eitthvert réttlæti er til

Punktar

Miklu fleiri eru viðriðnir bankaránin í fyrrasumar en áður var talið. Ránin námu meira en helmingi allra útlána bankanna. Starfsmenn bankanna opnuðu fjárhirzlurnar upp á gátt. Buðu aðstandendum bankanna að ryksuga þær án þess að leggja fram nothæf veð. Að þessari sögu komu ekki bara bankastjórar og útrásarvíkingar. Vitorðsmenn voru deildarstjórar og endurskoðendur bankanna og einkum þó og sér í lagi bankaráðsmenn þeirra. Tugir manna eru sekir um að hafa vanrækt að gæta hagsmuna bankanna. Þeir verða vafalítið kærðir og dæmdir til langrar fangavistar. Ef eitthvert réttlæti er til í landinu.