Efna 44 ára gamalt loforð

Greinar

Opnun stjórnmála í Póllandi og Ungverjalandi er síðbúin efnd á 44 ára gömlu, skriflegu loforði, sem Stalín gaf Vesturveldunum í Jalta. Þar ákváðu fulltrúar heimsveldanna, hver skyldi verða skipting áhrifasvæða þeirra í Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni.

Samkvæmt Jalta-samningnum áttu ríkisstjórnir í Austur-Evrópu eftir stríð að taka tillit til Sovétríkjanna í utanríkismálum, svo sem finnsk og austurrísk stjórnvöld þurfa raunar að gera. En stjórnarfar þar eystra átti að öðru leyti að ráðast í frjálsum kosningum.

Ef Stalín hefði ekki svikið þetta samkomulag, væri ástandið í Austur-Evrópu sennilega svipað og í Austurríki og Finnlandi. Ákveðið tillit væri tekið til Sovétríkjanna í utanríkismálum, en margir stjórnmálaflokkar skiptust á um að fara með völd eftir kosningaúrslitum.

Nú ætla stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi að fara að deila völdunum, sem kommúnistaflokkar landanna hafa setið einir að. Þetta stafar ekki af lýðræðisást stjórnvalda, heldur af því að þau hafa siglt málum svo í strand, að þau þurfa aðstoð stjórnarandstöðu.

Þetta er hægt, 44 árum eftir fundinn í Jalta, af því að Sovétríkin sjálf hafa leiðzt inn á braut opnunar í stjórnmálum og viðreisnar í efnahag. Þar er byrjað að kjósa milli manna í kosningum og farið að reyna að nota markaðshyggju til að blása lífi í þjóðarhag.

Ólíklegt er talið, að Gorbatsjov sendi Rauða herinn til Búdapest eða Varsjár til að færa klukkuna aftur á bak. Hugsanlegt er þó, að slíkt verði haldreipi hans, ef hann fer halloka heima fyrir og þarf að nota ofbeldi út á við til að þóknast íhaldsmönnum flokksins.

Enn verður að gera ráð fyrir, að opnun og viðreisn standi tæpt í Sovétríkjunum. Viðreisnin er dæmd til að valda vonbrigðum, því að hún er svo feimnisleg, að hún minnir á stefnu Framsóknarflokksins og núverandi ríkisstjórnar á Íslandi. Slík stefna fer út um þúfur.

En hlýir vinda blása frá Moskvu aldrei þessu vant. Það gerir stjórnvöldum í Póllandi og Ungverjalandi kleift að reyna að fljóta ofan á valdapýramíða landa sinna með því að semja við stjórnarandstöðuna um nokkuð víðtæka valddreifingu undir forustu flokksins.

Í Póllandi á stjórnarandstaðan að fá aðgang að þriðjungi sæta neðri deildar þingsins og að allri efri deildinni. Í Ungverjalandi á hún í kosningum að fá að sitja við sama borð og kommúnistaflokkurinn. Í báðum lönd um er ráðgert að draga úr skorðum við prentfrelsi.

Athyglisvert er, að hreyfikraftar framfaranna í Póllandi og Ungverjalandi eru efnahagsógöngur, sem stjórnvöld hafa ratað í vegna feimnislegra tilrauna þeirra í vestrænni hagfræði. Þau skilja ekki fremur en íslenzk stjórnvöld, að kaupa verður allan markaðspakkann.

Hætt er við, að afturkippur komi í smáskammtafrelsið í Austur-Evrópu, þegar fólk áttar sig á, að það leysir ekki öll vandamál. Í stað þess að laga stöðuna með því að stökkva alla leið yfir í frjálshyggjuna, verður líklega reynt að draga úr frelsinu á nýjan leik.

Við sjáum fordæmið frá Kína, þar sem stjórnvöld urðu einna fyrst til að opna kerfið. Nú hafa þau hemlað fast á öllum sviðum. Þau hafa dregið úr tjáningarfrelsi, aukið ofsóknir á hendur minnihlutaþjóðum í landinu og horfið frá ýmsum tilraunum í markaðsbúskap.

Af ýmsum ástæðum er því rétt að hafa hóf á bjartsýninni, þegar stjórnvöld í Austur-Evrópu eru sum hver að byrja að haga sér í samræmi við Jalta-samkomulagið.

Jónas Kristjánsson

DV