Kostas Kanteris og Katerina Þanú hafa dögum saman verið á flótta undan blóðprufum, sem eiga að leiða í ljós ólögleg efni. Þetta eru helztu spretthlauparar Grikklands, stofnanda ólympíuleikanna og gestgjafa þeirra. Í gær var Alþjóða ólympíunefndin ekki enn búin að manna sig upp í að reka þau.
Þau komu ekki í blóðprufu í Chicago fyrir rúmri viku og ekki í Aþenu á fimmtudaginn. Þegar þau voru talin við æfingar á Krít, reyndust þau hafa farið til Katar á Arabíuskaga. Að lokum sögðust þau hafa slasast í mótorhjólaslysi, sem talið er hafa verið sviðsett til að komast hjá blóðprufunni.
Meðan lögfræðingar Kanteris og Þanú ganga berserksgang við að finna nýjar útskýringar á hegðun þeirra að undanförnu, hafa aðrir íþróttamenn hótað að hætta við keppni, ef þau komist upp með endurtekin undanbrögð. Eitt land hefur beinlínis hótað að draga sig til baka úr ólympíuleikunum.
Þetta hneyksli hefur verið helzta umræðuefni grískra fjölmiðla og heimspressunar, þótt þess hafi ekki mikið orðið vart í fjölmiðlum á Íslandi, ekki frekar en slagurinn um aðkomu stórfyrirtækja að kostnaði leikanna og tilraunum til að útiloka vörur, sem ekki borga mútufé til ólympíuleikanna.
Svo langt gengur sá slagur, að áhorfendur eiga á hættu að vera vísað frá leikvöngum, ef þeir eru í röngum skóm, röngum bol, með rangan gosdrykk í hendi. Spurningin er nefnilega, hvort Kók eða Pepsí eigi leikana, Nike eða Addidas eða Puma og hvernig eigi að refsa fólki, sem ekki makkar rétt.
Baráttan um læknadópið og peningana er hörð á þessum frægu leikum. Margt stendur þó til bóta. Til dæmis hafa Bandaríkin tekið forustu um að reyna að elta uppi ný lyf, sem gefin eru íþróttafólki til að bæta árangurinn. Yfir 50 íþróttamenn þar í landi hafa verið dæmdir í keppnisbann í blóðprufuátaki.
Um allan heim hafa íþróttamenn verið dæmdir í keppnisbann á undanförnum mánuðum. Einnig hefur verið reynt að elta uppi ný lyf, sem sérhönnuð hafa verið til að komast hjá að sýna virkni í blóðprufum. Þannig fannst nýtt steralyf um daginn í Bandaríkjunum. Menn óttast að nú séu að koma litningalyf.
Stríðið um íþróttadópið heldur áfram og veitir ýmsum betur. Sama er að segja um stríðið um íþróttafjármagnið. Það heldur áfram og skilur eftir sigurvegara og sigraða. Spurningin er ekki, hvort ólympíuleikarnir séu hreinir eða ekki, bara hvort þeir séu meira eða minna skítugir en þeir voru síðast.
Sennilega mun stríðið um dópið áfram vera í jafnvægi næstu árin. Verri er staðan með peningana. Allt frá því í Atlanta árið 1996 hafa ólympíuleikarnir aðallega verið peningaplokk.
Jónas Kristjánsson
DV