Efnahagslífið laxerar

Greinar

Gjaldþrot Álafoss markar tímamót í átökum tveggja sjónarmiða um efnahagsstefnu þjóðarinnar. Lokið er nokkurra ára tímabili harðskeyttrar velferðarstefnu í atvinnulífinu. Markaðslögmálin eru að nokkru leyti aftur komin til skjalanna með nýrri ríkisstjórn.

Velferðarstefnan miðar að verndun hefðbundinna fyrirtækja á borð við Álafoss og hefðbundinna atvinnugreina á borð við landbúnað. Í flestum tilvikum eru þetta láglaunafyrirtæki og láglaunagreinar, sem með forgangi sínum tefja innreið nýrra hálaunagreina.

Markaðsstefnan segir hins vegar, að hefðbundin láglaunafyrirtæki og hefðbundnar láglaunagreinar megi fara á hausinn, því að minna heft markaðslögmál muni sjá um, að nútímalegri hálaunafyrirtæki og hálaunagreinar leysi hin hefðbundnu smám saman af hólmi.

Löngum hefur verið tvískinnungur í afstöðu Íslendinga til þessarra tveggja meginsjónarmiða, þótt afkoma þjóðarinnar hafi áratugum saman hangið á erlendum markaðsaðstæðum íslenzkra sjávarafurða. Við höfum fetað hægar en aðrir í átt til markaðsbúskapar.

Hér á landi eru margir hræddir við óvissu markaðarins. Menn vilja heldur reikna hlutina. Ágætt dæmi um reiknistefnu í sjávarútvegi og landbúnaði eru verðlagsráð, þar sem ríkisvald og hagsmunaaðilar koma saman á fundi til að leika hlutverk markaðslögmála.

Ef kvartað er um há þjónustugjöld á Keflavíkurflugvelli, setjast menn niður við að reikna, hver gjöldin séu og eigi að vera í samanburði við ýmsa staði í útlöndum. Kerfinu dettur síðast af öllu í hug, að láta megi markaðinn ráða með því að afnema einokun á þessu sviði.

Reiknistefna Íslendinga gefur möguleika á einu fráviki frá verndarstefnu hefðbundinnar atvinnu. Það felst í, að reiknimenn hins opinbera megi efla nýjar greinar að ofan með svipaðri góðsemi opinberra sjóða. Þannig var þjóðinni ýtt út í fiskeldi og loðdýrarækt.

Með síðustu ríkisstjórn varð velferðarstefnan gjaldþrota. Sú stjórn efldi sjóðakerfi hefðbundinnar atvinnu meðal annars með Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði. Þeir verða gjaldþrota eins og aðrir slíkir sjóðir og eins og mörg fyrirtækjanna, sem höfðu forgang að fé.

Um leið urðu einnig gjaldþrota hinar nýju greinar, sem voru reiknaðar að ofan og nutu hliðstæðs aðgangs að peningum og hinar hefðbundnu greinar. Velferðarstefnan og reiknistefnan biðu sameiginlegt skipbrot, enda stangast báðar á við erlend markaðslögmál.

Þessi umskipti hafa enn ekki komið fram af fullum þunga, því að fiskiðnaðurinn er rétt að byrja að verða gjaldþrota. Frystitogarar og fiskmarkaðir og ferskfiskþróun hafa á skömmum tíma gert fjárfestingu í fiskiðnaði í landi meira eða minna verðlausa um allt land.

Það er ekki beinlínis ást á markaðslögmálum, sem veldur því, að ný ríkisstjórn neitar að borga meira í hina og þessa Álafossa. Það stafar fyrst og fremst af því, að engir peningar eru lengur til. Fyrri ríkisstjórn var búin að dauðhreinsa alla möguleika á því sviði.

Velferðar- og reiknistefna hlýtur að víkja fyrir markaðsstefnu, því að vestræn fríverzlunarþjóð hefur ekki efni á langvinnu sukki með peninga. Velferðar- og reiknistefna hefur nýlega hrunið til grunna í Austur- Evrópu og riðar til falls í Sovétríkjunum og Íslandi.

Þótt hin nýja ríkisstjórn feti markaðsbrautina fremur af illri nauðsyn en af beinni sannfæringu, eru umskiptin samt raunveruleg. Efnahagslífið er að laxera.

Jónas Kristjánsson

DV