Eftir Haag er heimavinna

Greinar

Fremur er ástæða til að lofa en lasta, að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fór út um þúfur í Haag um helgina og verður fram haldið á næsta vori. Þau býti, sem reynt var að bjóða í lokin, voru þess eðlis, að þau hefðu aukið loftslagsmengun af mannavöldum.

Vandinn stafar af nokkrum ríkjum, sem ekki vilja taka þátt í heimsátaki á þessu sviði og verja allri orku umboðsmanna sinna til að komast undan aðild. Ísland er í hópi þessara ríkja, sem hafa ekkert jákvætt til málanna að leggja, eingöngu meinta sérhagsmuni sína.

Í ljósi alvöru málsins er ótækt, að ráðstefna um framkvæmd Kyoto-sáttmálans snúist nær eingöngu um tilraunir þessara ríkja til að hlaupast undan merkjum og tilraunir sáttasemjara til að brúa gjána milli þessara fáu hagsmunapotara og meginþorra ríkja heimsins.

Í þessum svonefnda Regnhlífarhópi eru það eingöngu Bandaríkin, sem skipta máli. Stjórnvöld þar hafa áttað sig á, að langur vegur er frá almenningsálitinu vestra yfir í álit bandarískra þingmanna. Þeir eru hallir undir álit mengunarfyrirtækja, sem borga kosningabaráttuna.

Því skiptir ekki máli, hvaða samkomulag er gert á fjölþjóðavettvangi um miklar, litlar eða engar varnir gegn auknum flóðum og stormum, ágangi sjávar og tilfærslu hafstrauma og fiskistofna. Bandaríska þingið mun neita að staðfesta hvaða samkomulag, sem verður ofan á.

Ekki eru horfur á, að ástandið batni að sinni að þessu leyti í Bandaríkjunum. Ferlið er óheft í áttina frá lýðræði almennings yfir í auðræði stórfyrirtækja. Þeir þingmenn, sem nú hafa verið kjörnir til tveggja ára, eru ekki fulltrúar almennings, heldur óhefts peningavalds.

Baráttan fyrir endurheimt jafnvægis í lofthjúpnum færist nú að miklu leyti inn í Bandaríkin, þar sem eru öflugustu umhverfisverndarsamtök heimsins. Þau eru að átta sig á, að styrjöldin vinnst ekki á fjölþjóðavettvangi, heldur í kosningum innanlands í Bandaríkjunum.

Bandarísk umhverfissamtök hljóta að leggja aukna áherzlu á að setja þingmenn á svartan lista, ef þeir eru hallir undir mengunarhagsmuni. Þau hljóta að beina kröftum sínum til að fá kjósendur til að skipta þeim út fyrir umhverfissinna í næstu kosningum.

Hið sama verða raunar umhverfissinnar einnig að gera í öðrum ríkjum Regnhlífarhópsins. Þeir, sem telja breytingar á loftslagi jarðar stefna í óefni, þurfa að taka höndum saman um að setja þá stjórnmálamenn á svartan lista, sem hafa unnið gegn umhverfissjónarmiðum.

Ósigurinn í Haag verður til að stappa stálinu í fólk. Mikil reiði er um allan heim vegna vangetu ríkisstjórna heims til að staðfesta inntak Kyoto-sáttmálans og framkvæma hann. Ríkisstjórnirnar munu fara undan í flæmingi og vísa sök á hendur Regnhlífarhópnum.

Framvindan er fyrirsjáanleg. Loftslagið þarf að versna enn, áður en það byrjar að batna. Við munum sjá fleiri og verri flóð og storma og við munum sjá hafið ganga á land í auknum mæli. Að lokum vöknum við til vitundar um, að manngerð mengun er komin úr böndum.

Ekki má gleyma því, að samstaða Evrópusambandsins að Bretlandi undanskildu á fundinum í Haag var áfangasigur, sem lofar góðu um, að ekki verði gefið eftir fyrir mengunarsinnum á borð við ríkisstjórn Íslands, þegar fundinum verður fram haldið á næsta vori.

Á meðan þurfa menn að vinna heimavinnuna sína, fara niður í grasrótina í hverju ríki fyrir sig og beina spjótum sínum að gæzlumönnum mengunarhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV