Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er gjaldþrota og hefur raunar alltaf verið það. Hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum. Ríkið gerir ráð fyrir, að börn okkar og barnabörn, skattgreiðendur framtíðarinnar, muni spýta mismuninum inn í ríkiskerfið, þegar hinir fullorðnu flykkjast á ellilaun.
Þetta er kallað gegnumstreymi, öfugt við uppsöfnunina, sem gildir í öðrum lífeyrissjóðum. Þeir ekki geta skattlagt börn okkar og barnabörn fyrir sukki íslenzkra landsfeðra, sem lifa fyrir líðandi stund eins og hinn eyðsluglaði Loðvík fimmtándi, er sagði: “Eftir mína tíð kemur hrunið.”
Ríkið fer raunar báðar leiðir í senn, gegnumstreymis og uppsöfnunar. Það á fyrir hluta skuldbindinganna, en ekki öllum. Þetta gerist á tímum, þegar peningar flæða inn í ríkissjóð vegna einkavæðingar. Þrátt fyrir einnota gróðann, syndgar ríkið upp á framtíð barna okkar og barnabarna.
Gegnumstreymið gerir ráð fyrir, að á hverjum tíma komi inn á vinnumarkaðinn eins margir og fara út af honum. Hinir nýju geti borgað lífeyrinn fyrir hina gömlu og fái svo til baka í sömu mynt, þegar þeir þurfa sjálfir að setjast í helgan stein. Gegnumstreymið gerir ráð fyrir jafnvægi kynslóðanna.
Til skamms tíma fóru fámennar kynslóðir af vinnumarkaðinum. Nú er það hins vegar að breytast. Mikil fólksfjölgun fyrri áratuga er að byrja að leiða til þess, að fjölmennar kynslóðir fara á eftirlaun. Aldurspíramídinn er að verða eins og kókflaska, grennist í miðjunni, bólgnar í toppinn.
Vandamálið er nærtækara í ýmsum öðrum vestrænum ríkjum, sem hafa syndgað meira upp á náð væntanlegra skattgreiðenda. Þar eru menn farnir að hafa feiknarlegar áhyggjur af hugsanlegu hruni velferðarkerfis aldraðra, þegar hálfu þjóðirnar verða komnar á eftirlaunaaldur, án þess að eiga fyrir ellinni.
Við hefðum átt að geta varast víti nágrannaþjóðanna, af því að þetta ferli er fyrir löngu orðið auðsætt. Við getum raunar enn vikið endanlega af braut gegnumstreymis yfir á braut uppsöfnunar, af því að ríkið er að drukkna í gróðanum af sölu innviða þjóðfélagsins í hendur einkageirans.
Þetta einnota tækifæri einkavæðingar er meðal annars hægt að nota til að koma skikki uppsöfnunar á lífeyrismál opinberra starfsmanna. Lokaskrefið má stíga, þegar Síminn verður seldur. Því miður er mikil hætta á, að landsfeður okkar hafi svipað hugarfar og hinn sukksami kóngur í Versalahöll.
Stefna líðandi stundar hefur um skeið verið svipuð við Lækjartorg og var í Versölum á sínum tíma. Á báðum stöðum gildir því miður spakmælið: “Eftir mína tíð kemur hrunið.”
Jónas Kristjánsson
DV