Evrópusambandið hefur gert Íslendingum meira gagn með einfaldri og ófrávíkjanlegri kröfu um flugfrelsi innanlands heldur en Samkeppnisráð hefur gert á löngum ferli, fyrst sem Verðlagsráð. Við sjáum áhrif Evrópusambandsins í fargjaldahruni á innanlandsleiðum.
Samkeppnisráð hefur þó verið að færast í aukana á síðustu árum. Það hefur nú úrskurðað, að samningur Eimskipafélagsins og Samskipa um Ameríkusiglingar brjóti í bága við samkeppnislög. Af hefðbundinni mildi veitir ráðið þó félögunum þriggja ára undanþágu.
Samkeppnislög segja skýrt, að samstilltar aðgerðir fyrirtækja á sama sölustigi séu bannaðar, þegar þeim er ætlað að hafa áhrif á skiptingu markaða. Það gerðu Eimskip og Samskip einmitt nákvæmlega, þegar þau tóku upp samstarf í Ameríkusiglingum um áramótin.
Ráðið veitir undanþáguna á gamalkunnum forsendum haftakerfisins gamla. Það segir, að flutningar hafi farið minnkandi, flutningsgeta hafi ekki verið nýtt og félögin hafi sýnt fram á tap. Í framhaldi bullar forneskjulegt ráðið um jákvæð áhrif af hömlum á samkeppni.
Villan í hugmyndafræði haftakerfisins felst í að taka núverandi ástand tilkostnaðar framleiðanda og reikna verðgildi vörunnar eða þjónustunnar út frá honum. Verðgildi vöru og þjónustu fer hins vegar ekkert eftir fyrirhöfninni, sem liggur að baki á hverjum tíma.
Verðgildi vöru og þjónustu, hvort sem það eru Ameríkusiglingar, innanlandsflug eða eitthvað annað, felst í því verði, sem frjáls og óheftur markaður vill borga fyrir hana. Í þessu felst grundvallarmunur markaðsbúskapar og haftabúskapar að hætti Samkeppnisráðs.
Samkvæmt markaðshagfræðinni eru áhyggjuefni Samkeppnisráðs marklaus með öllu. Við sjáum það líka í raunveruleikanum, að allt í einu er hægt að lækka fargjöld innanlands um helming, eftir áratuga samfelldan grát Flugleiða út af meintu tapi á innanlandsflugi.
Ef ráðið hefði komið nálægt ákvörðuninni um innlent flugfrelsi, hefði það einmitt hindrað frelsið með hliðstæðri tilvísun til þess, að úttekt hefði leitt í ljós, að tap væri á innanlandsflugi og að flutningsgeta væri meiri en næg fyrir þann markað, sem væri “til skiptanna”.
Ráðið fúskaði raunar lítils háttar við sameiningu innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands í eitt Flugfélag Íslands. Það gerði kröfu til ýmissa ytri formsatriða, sem áttu að dylja einokunina, svo sem kröfu um, að fulltrúar eigendafélaganna sætu ekki beint í stjórn.
Málsaðilar vældu dálítið út af þessum kröfum og sögðu þær sumpart kjánalegar, sem þær raunar voru. Engu að síður gátu þeir farið kringum þær og haldið áfram fyrirhugaðri einokun í skjóli Samkeppnisráðs. Ef Evrópusambandið hefði ekki komið til skjalanna.
Helzti galli ráðsins er, að það starfar enn að nokkru eins og það gerði, þegar það hét Verðlagsráð. Breytingar á gömlu vinnubrögðunum frá haftatímanum hafa verið svo feimnislegar og hægfara, að það treystir sér ekki einu sinni til að fara eftir nýju samkeppnislögunum.
Undanþágan í Ameríkusiglingunum sýnir vel, að ráðið hefur ekki enn áttað sig á nýjum lögum og nýjum tíma. Það er enn að nudda haftastírurnar úr augunum og veit raunar ekki, hvaðan á sig stendur veðrið, þegar reynt er að segja því, að ný hagfræði ráði ríkjum.
Vegna þessa hefur Samkeppnisráð brugðist vonum samkeppnissinna. Markaðsframfarir hér á landi koma enn að utan, samkvæmt kröfum Evrópusambandsins.
Jónas Kristjánsson
DV