Eftirlit á flæmskum hatti

Greinar

Íslenzkir skipstjórar og útgerðarmenn verða að fara eftir settum reglum við úthafsveiðar eins og veiðar á heimamiðum. Íslenzk stjórnvöld gæta hagsmuna þessara aðila út á við nánast eftir pöntun og verða að geta treyst því, að íslenzkir eftirlitsmenn komist um borð.

Sjávarútvegsráðuneytið mótmælti skipan Fiskveiðinefndar Norður-Atlantshafs á veiðum á Flæmska hattinum við Nýfundnaland fyrir áramót og gerði þannig íslenzkum rækjutogurum kleift að stunda þar veiðar. Á móti verður að koma, að togararnir fari að reglum.

Íslendingar eru aðilar að samkomulagi Fiskveiðinefndar Norður-Atlantshafs um, að eftirlitsmenn skuli vera um borð í fiskiskipum. Íslenzkir hagsmunaaðilar, sem stunda veiðar á Flæmska hattinum í skjóli íslenzkra stjórnvalda, verða að fara eftir þessu samkomulagi.

Vel getur verið, að stakir skipstjórar og útgerðarmenn telji henta sér að stunda sjórán á úthafsmiðum. En þá verða þeir líka að taka því, að slíkt gerist ekki í skjóli íslenzkra stjórnvalda. Ef þeir eru þar í skjóli íslenzkra stjórnvalda, verða þeir að hlýða fyrirmælum.

Veiðar íslenzkra togara á Flæmska hattinum eru ótryggar. Þær eru háðar fjölþjóðlegu þjarki, þar sem íslenzka sjávarútvegsráðuneytið reynir meðal annars að sýna fram á, að veiðihugmyndir þess séu marktækar. Íslenzkir langtímahagsmunir eru þar í húfi.

Verr er af stað farið en heima setið, ef íslenzkir hagsmunaðilar þakka fyrir með því að hafa í hótunum við ráðuneytið og segjast neita að taka við íslenzkum eftirlitsmönnum um borð, fara með rangt mál um kostnað við eftirlitið og grafa þannig undan ráðuneytinu.

Útilokað er, að íslenzk stjórnvöld geti áfram stutt við bakið á hagsmunaaðilum, sem fara sínu fram í trássi við það, er þau telja vera langtímahagsmuni þjóðarinnar. Sjávarútvegsráðuneytið verður þá að hætta að halda uppi hagsmunagæzlu fyrir þessa óstýrilátu aðila.

Útgerðin greiðir allan kostnað við eftirlit af hálfu íslenzkra stjórnvalda á heimamiðum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Eftirlitið, sem íslenzk stjórnvöld hafa samþykkt á Flæmska hattinum, er fyrirferðarmeira og dýrara, enda er þar um úthafsveiðar að ræða.

Útgerðarmenn rækjuskipa óttast réttilega, að væntanlegt lagafrumvarp um stjórn úthafsveiða muni fela í sér svipuð ákvæði um, að þeir borgi það eftirlit eins og eftirlitið á heimamiðum. Þeir munu tæpast koma í veg fyrir slíkt og alls ekki með hótunum og yfirgangi.

Hagsmunaaðilar hafa haldið fram, að þetta eftirlit kosti 100 milljónir á Flæmska hattinum. Því fer víðs fjarri. Eftirlitið á íslenzkum heimamiðum kostar þessa peninga á hverju ári. Eftirlit á Flæmska hattinum mun ekki kosta nema lítið brot af þessari upphæð.

Til bráðabirgða greiðir Fiskistofa þetta eftirlit, nema fæðiskostnað eftirlitsmanna um borð í skipunum. Þann kostnað greiðir sjávarútvegsráðuneytið til bráðabirgða. Óeðlilegt er, að skattgreiðendur haldi lengi áfram að greiða þennan kostnað fyrir óstýrilátar útgerðir.

Að gefnu tilefni er brýnt, að lagafrumvarp um stjórn úthafsveiða líti dagsins ljós strax á þessu þingi. Enn fremur er brýnt, að það feli ekki í sér neitt undanhald frá þeirri reglu, að útgerðir fiskiskipa, en ekki skattgreiðendur, beri kostnað við eftirlit með þessum veiðum.

Farsælast er fyrir alla íslenzka málsaðila að skipa sér þétt saman og bíta ekki í höndina á þeim eina aðila, sem getur gætt íslenzkra hagsmuna utan íslenzkrar lögsögu.

Jónas Kristjánsson

DV