Sovétríkin hafa framlengt einhliða bindindi sitt í tilraunum með kjarnorkuvopn. Það hefur staðið í rúmt ár, síðan 6. ágúst í fyrra. Nokkrum sinnum hefur það verið framlengt, nú síðast til næstu áramóta. Þetta er mikilvægt skref í friðvænlega átt.
Á sama tíma hafa Bandaríkin gert átján tilraunir með kjarnorkuvopn. Þau afsaka sig með, að verr hafi staðið á hjá sér en Sovétríkjunum, sem hafi valið tíma, er hentaði þeim sjálfum. En sú röksemd gildir ekki endalaust og hún gildir ekki lengur, rúmu ári síðar.
Ef leiðtogar heimsveldanna tveggja undirrita á fundi sínum í vetur eitthvað, sem varðar takmörkun vígbúnaðar, er eðlilegt og gagnlegt, að þar verði kveðið á um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og um fullnægjandi eftirlit með, að bannið verði virt.
Annað friðarskref hefur verið stigið og það gagnkvæmt. Bandaríkin og Sovétríkin hafa fallizt á að taka að nýju upp í Genf viðræður um aðgerðir til að koma í veg fyrir styrjöld fyrir slysni. Viðræðurnar hefjast í næsta mánuði og er stefnt að árangri fyrir toppfundinn.
Bandaríkin hafa lagt fram girnilega tillögu um, að komið verði í Moskvu og Washington á fót stofnunum, þar sem Bandaríkjamenn og Sovétmenn skiptist á upplýsingum um hernaðarlegar aðgerðir, svo sem tilraunir og heræfingar, svo að þær komi ekki á óvart.
Mikilvægt er, að heimsveldin geti fylgzt nákvæmlega með flutningum hermanna og hergagna hvort annars, svo að misskilningur leiði ekki til ósjálfráðra viðbragða. Tækniþróunin hefur gert viðbragðstímann svo skamman, að brýn þörf er á slíkri upplýsingamiðlun.
Friður og öryggi verða bezt tryggð með aðgerðum, sem koma í veg fyrir ótta við skyndiárás. Sá ótti veldur því, að menn eru sífellt með fingurinn við hnappinn. Eftirlit og upplýsingastreymi eru réttu aðferðirnar til að byggja upp gagnkvæmt traust á þessu sviði.
Hingað til hefur Sovétmönnum verið í nöp við tillögur um eftirlit og upplýsingar. Á fundum Evrópu- og Norður-Ameríkuríkja í Stokkhólmi, þar sem í hálft þriðja ár hefur verið þjarkað um aðgerðir til að efla traust, hafa þeir núna loksins slakað á andstöðunni.
Annað atriði, sem skiptir miklu, er, að heimsveldin semji um samdrátt sóknarvopna fremur en varnarvopna, skyndiárásarvopna fremur en hefndarvopna, fyrstu hrinu vopna fremur en annarrar hrinu vopna. Slíkur samdráttur ætti fremur en annar að efla traust.
Sovétríkin eru afar sek á þessu sviði. Þau hafa lagt áherzlu á vopn, sem henta til skyndiárásar, meðan Bandaríkin hafa framleitt mest af vopnum, sem ætlað er að standast skyndiárás og notast í næstu hrinu. Fyrrnefndu vopnin leiða greinilega til meira öryggisleysis.
Í bréfaskriftum leiðtoga heimsveldanna í sumar hefur verið skákað fram og aftur hugmyndum um 3050% samdrátt kjarnorkuvopna. Endanlegar tölur skipta minna máli en það samkomulag, sem hugsanlega kann að nást um eftirlit með, að samdrátturinn sé framkvæmdur.
Alfa og ómega friðar og öryggis í heiminum er, að Sovétríkin fallist á strangt og gagnkvæmt eftirlit og upplýsingaflæði. Ef þau eru nú á þessu ári farin að linast í andstöðunni við eftirlit, er í fyrsta sinn hægt að ræða af viti um takmörkun og samdrátt vígbúnaðar.
Endurteknar framlengingar á tilraunabindindi Sovétríkjanna má túlka sem merki um síðbúinn sáttavilja, er getur ráðið úrslitum um gengi friðarviðræðna.
Jónas Kristjánsson
DV