Ólafur G. Einarsson menntaráðherra hefur vikið frá hefðbundnum viðbrögðum ráðherra við fjárkröfum á hendur ríkinu. Hann segist ekki lengur ætla að skoða vandræðamál, sem upp koma, heldur vísar þeim til fjárveitinganefndar Alþingis, sem hafi með slíkt að gera.
Ef ríkið byggir risastóra Þjóðarbókhlöðu, en gleymir að gera ráð fyrir rekstrarkostnaði til samræmis við húsakynni, er það ekki mál ráðherrans, sem sendir frá sér fjárlagatillögur, heldur fjárveitinganefndar Alþingis. “Ég bara vinn hérna” virðist ráðherrann vera að segja.
Sama er að segja um vanefndir á skólalögum af ýmsu tagi og skort á fé til að framkvæma breytingar á þeim, jafnvel þótt frumvörp um þessar breytingar verði til í menntaráðuneytinu. Ráðherrann telur ekki við sig að sakast í þeim efnum, heldur fjárveitinganefnd Alþingis.
Ef menntaráðuneytið lætur allt í einu algerlega hjá líða að leggja í fjárlagapúkkið tillögur um peninga í kvikmyndasjóði og listaverkasjóði, er ráðherrann nánast forviða. Hann virðist ekki telja sig hafa neitt með slík mál að gera og vísar á vondu kallana í fjárveitinganefnd.
Fjárveitingavaldið er réttilega í höndum Alþingis, en ekki ráðherra, þótt hinir síðarnefndu hafi löngum reynt að sölsa það undir sig. Í raun hafa fjárlagafrumvörp verið smíðuð í ráðuneytum, pakkað saman í fjármálaráðuneyti og síðan afgreidd með litlum frávikum á þingi.
Í samræmi við þennan ólöglega raunveruleika hafa prunknir ráðherrar hampað mætti sínum og dýrð á opinberum vettvangi. Þeir lofa stórum og smáum fjárveitingum upp í ermi sér, af því að þeir vita, að fjárveitinganefnd og Alþingi staðfesta þetta sem gerðan hlut.
Þótt æskilegt sé, að ráðherrar víki frá ólöglegri iðju, er óneitanlega nokkuð róttækt af ráðherra að hlaupa yfir á hinn kantinn og hafna afskiptum og ábyrgð á fjármálum ráðuneytis síns, alveg eins og hann hafi ekkert með að gera, hvaða tillögur komi frá ráðuneytinu.
Menntaráðherra er að búa til nýja mynd af sér, þar sem hann lifir í limbói utan menntaráðuneytisins og vill ekkert vita um gang mála í þeirri ógnvænlegu stofnun. Hann virðist sitja við skrifborð úti í bæ og telja svokallaða skúffupeninga í hendur gestkomandi stafkarla.
Samkvæmt skrá um úthlutun úr skúffupeningasjóði menntaráðherrans má hann ekkert aumt sjá, ef upphæðirnar eru nógu lágar og vandamálin nógu persónuleg, en allar stærri línur í rekstri ráðuneytisins eru honum óviðkomandi sem hvert annað náttúruafl eða guðdómur.
Svo upptekinn er ráðherrann við að telja þúsundkalla upp úr skúffum í hendur aðvífandi stafkarla, að hann má í hálft annað ár ekki vera að því að veita ættingjum Gunnars skálds Gunnarssonar viðtal um vanefndir ráðuneytisins á reglugerð um meðferð Skriðuklausturs.
Raunar talar ráðherrann ekki heldur við yfirmenn í ráðuneytinu, utan einn eða í mesta lagi tvo. Hann hefur lokað sig af og telur fram skúffupeninga, en lætur sig rekstur ráðuneytisins svo litlu skipta, að fjárlagatillögur úr ráðuneytinu virðast vera honum næsta óviðkomandi.
Svo þreytt er fólk orðið á slætti og hroka annarra ráðherra fyrr og síðar, að lítillæti og auðmýkt þessa ráðherra gæti verið ánægjuleg tilbreyting, ef hún gengi ekki út í sams konar öfgar og yfirgangur hinna. Fólk er ekki beinlínis að biðja um, að algleymi ríki í ráðherrastóli.
Hins vegar verður að viðurkennast, að þungu fargi hlýtur að vera létt af hverjum þeim ráðherra, sem kemst svo nærri nirvana að geta sagt: “Ég bara vinn hérna”.
Jónas Kristjánsson
DV