“Ég er skattborgari í þessu landi”

Punktar

SVANUR ELÍASSON ER SKJÓLSTÆÐINGUR kerfisins og telur sig ekki ábyrgan fyrir neinu, sem kemur fyrir hann á leiðinni um táradal lífsins. Skemmtileg saga af firringu kemur fram í viðtali við hann í DV í gær.

SVANUR VAR ÚTÚRDÓPAÐUR af Fenemal. Það var ekki honum að kenna, heldur læknunum, sem ávísa á það eins og smarties, svo að notað sé hressilegt orðalag Svans. Öll vandamál eru auðvitað umhverfinu að kenna.

SVANUR SEGIST HAFA RÚSTAÐ heimili sínu eins og um eðlilega og sjálfsagða athöfn sé að ræða. Hann segist hafa verið lífgaður tvisvar við af kærustunni og lagður inn á Landspítalann, þar sem hann var utangátta.

ÞAR LAMDI HANN DEILDARSTJÓRA, sem hann sagði hrokafullan. “Ég missti bara stjórn á mér”, sagði hann í DV eins og hann væri að tala um sjálfsagðan hlut. Það er auðvitað umhverfið, sem lætur hann missa stjórn á sér.

HINN VERULEIKAFIRRTI KVARTAR yfir, að starfsmaður geðdeildar hafi tekið sig hálstaki “að tilefnislausu”. Í kjölfarið var honum vísað á dyr og er hann sérstaklega ósáttur við þá afgreiðslu.

“ÉG ER SKATTBORGARI í þessu landi og á að geta fengið þjónustu eins og hver annar án þess að vera beittur ofbeldi,” segir hann staffírugur, búinn er að rústa öllu heima hjá sér og standa ítrekað að slagsmálum á sjúkarahúsi.

ÞAÐ ER SKJÓLSTÆÐINGUR KERFISINS sem talar. Kerfið hefur nú útvegað honum pláss á meðferðarheimili, þar sem hann verður hresstur við til undirbúnings næstu törn. Það er erfitt að vera saklaust fórnardýr aðstæðna.

DV