Hélt mig vera orðinn gamalmenni eftir hjartauppskurð í fyrra og viðbeinsbrot í vor. Hafði mig þó í tveggja vikna hestaferð á fjöllum. Fram og aftur um Kjalveg forna, frá Kjóastöðum í Biskupstungum til Mælifells í Skagafirði. Dagleiðir voru svosem ekki ógnvænlegar, um 30 kílómetrar á dag. Lifði af og fattaði, að ég er ekki orðinn of gamall til að lifa. Næsta sumar vil ég taka svipaða rispu um Löngufjörur. Kominn aftur til upphafsins, þegar við hjónin fórum mest verndað með Íshestum og Eldhestum. Í millitíðinni forframaðist ég í fararstjóra og leiðsögumann, en erum nú aftur orðin óbreytt hjá Íshestum.