Ég úthluti mínum mest

Greinar

“Málefnin eru látin ráða í okkar flokki”, heyrist oft við hátíðleg tækifæri, þegar stjórnmálaflokkar halda aðalfundi. “Þetta var bara spurning um menn, en ekki málefni”er stundum svarað, þegar fjölmiðlafólk spyr um valdaágreining innan stjórnmálaflokka.

Opinbert markmið flestra stjórnmálaflokka er, að málefni nái fram að ganga. Stundum er erfitt að átta sig á innihaldi málefnaágreinings, sem sagður er rista djúpt. Um helgina deildu alþýðubandalagsmenn um, hvort þeir væru “sósíalistar” eða “jafnaðarmenn”.

Málefni eru oft sett á oddinn í áróðri stjórnmálaflokka, því að hefð og siðir segja, að málefni séu það, sem eigi að greina flokkana að. Hin meintu málefni eru svo einfölduð í eins konar litróf stjórnmálanna, þar sem orð á borð við “hægri” og “vinstri”fá innihald.

Þegar verkin tala, eru litirnir fremur fölir í litrófinu. Málefnin virðast vera eins konar fatnaður, sem stjórnmálaflokkar og -menn klæðast, gjarna fyrir kosningar, þegar þeir leita umboðs fólksins til að taka þátt í valdastreitunni á vettvangi landstjórnar og byggðastjórna.

Íslenzk stjórnmál snúast sama sem ekkert um málefni. Flokkarnir eru fyrst og fremst kosningabandalög stjórnmálamanna, sem eru að leita umboðs til að verja eða bæta aðstöðu sína sem skömmtunarstjórar í úthlutunarþjóðfélagi, ­ sem dreifendur velferðarinnar.

Grundvallarspurning stjórnmálanna er: “Hver úthlutar hverjum hverju?” Og markmið stjórnmálamannsins er: “Ég úthluti mínum sem mestu”. Daglega fáum við margar fréttir af árangri þeirra á þessu sviði, en sjaldan heyrist um neinn málefnalegan árangur.

Velferðarkerfi almennings er ekki fyrirferðarmikið í úthlutunarkerfinu, sem byggt hefur verið upp á Íslandi. Fyrirferðarmest er velferðarríki fyrirtækjanna, sem brennir til ösku um fimmtán milljarða á ári, helminginn í landbúnaði og helminginn í ýmsu öðru.

Þingflokkurinn Stefán Valgeirsson, aðstoðarmannaeigandinn Stefán Valgeirsson, sjóðaformaðurinn Stefán Valgeirsson og Silfurstjörnuformaðurinn Stefán Val geirsson eru orðnir að persónugervingi íslenzkra stjórnmála, stærsta dæmið, en engan veginn eina dæmið.

Sameinaðir hagsmunir stjórnmálamanna í öllum flokkum er, að sem minnst af fé renni um þjóðfélagið, án þess að þeir hafi afskipti af því. Markmiðið er, að sem mest fé fari inn og út hjá ríkinu, svo að umsvif skömmtunar- og úthlutunarstjóra verði sem mest.

Nokkuð stór hópur kjósenda, en mikill minnihluti samt, hefur augljósan hag af þessu kerfi. Þennan hóp skipa öflugir þátttakendur í skiptingu herfangsins, sem stjórnmálamennirnir afla úr vösum almennings. Þessir kjósendur gæta hagsmuna sinna með því að kjósa rétt.

Miklu fleiri kjósendur fá minna úr skiptingu herfangsins en þeir eru látnir leggja í púkkið á móti. Þótt sumir þeirra sjái, að úthlutunin til þeirra jafngildir ekki framlagi þeirra sjálfra, lifa þeir í voninni um, að efling skömmtunarkerfisins muni laga hlutfallið þeim í hag.

Flestir eru þó þeir kjósendur, sem ekki hafa neinn aðgang að kjötkötlum stjórnmálakerfisins, en streitast við að borga sína skatta og skyldur. Tilvera úthlutunarkerfisins byggist á, að þessi fjölmenni hópur skilji ekki stjórnmálin og ímyndi sér, að þau snúist um málefni.

Þegar kjósendur eru búnir að taka saman höndum um að reka úthlutunarstjóra og úthlutunarflokka af höndum sér, verður unnt að lifa góðu lífi hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV