Eiðfaxi og Ljónshjarta

Greinar

Löngu eftir að bandaríska hefur rutt íslenzku úr vegi og Íslendingar aflagðir sem sérstök þjóð munu íslenzk nöfn lifa góðu lífi vítt um lönd í nöfnun tugþúsunda og jafnvel hundraða þúsunda íslenzkra hesta. Hvarvetna verða til Brúnkur og Gránar, Sörlar og Eiðfaxar.

Tæplega hundrað þúsund íslenzkir hestar með íslenzkum nöfnum eru nú til utan landsteinanna. Tugþúsundir erlendra fjölskyldna hafa íslenzka hestinn að þungamiðju tómstunda sinna og mynda um þær þúsundir klúbba, sem saman mynda öflug samtök.

Á sama tíma og barizt er um að halda sjávarútvegssýningu, sem laðar 500 útlendinga til landsins, er í inndölum norður í landi haldin hrossasýning, sem dregur til sín meira en 2.500 útlendinga, er kæra sig kollótta um sjúkdómsfréttir og harkalegar veðurspár.

Af umræðum á Netinu má ráða, að erlendir eigendur íslenzkra hesta líti með fögnuði til þess, að landsmót íslenzkra hesta verði hér eftir haldin á tveggja ára fresti í stað fjögurra áður. Þess vegna má búast við metaðsókn þeirra á landsmótið í Reykjavík árið 2000.

Landsmót eru ótrúleg gjaldeyrislind í samgöngum og ferðaþjónustu. Þau er þó bara toppurinn á ísjakanum, sem einnig felur í sér hestaferðir um óbyggðir, hrossasölur, reiðtygjaverzlun og útgáfu bóka og myndbanda. Tugir íslenzkra þjálfara eru á þönum milli landa.

Birtingarmyndir þessa vaxandi æðis eru margar. Á landsmóti íslenzkra hesta í Hollandi stígur glæsileg kona og álverseigandi úr Rolls Royce og kveður einkabílstjórann. Hún er með íslenzka hunda í för, er klædd íslenzkri lopapeysu og er á gúmmískóm.

Þannig hefur íslenzki hesturinn breytt lífsstíl þúsunda manna. Erlendir ræðumenn á markaðsþingi hrossamála í Eyjafirði á mánudaginn sögðu hver á fætur öðrum sömu söguna af því, hve djúpstæð og varanleg breyting yrði á lífi eigenda íslenzkra hesta.

Milli 2.000 og 3.000 hestar eru fluttir út árlega. Fjöldinn takmarkast fyrst og fremst af, að ekki tekst að rækta fleiri hesta, sem henta þessum markaði. Þýzki ræðumaðurinn á markaðsþinginu sagði þetta stafa af röngum áherzlum í vali ræktunarhrossa.

Erlendi markaðurinn vill þæga og skapgóða, en ekki lata fjölskylduhesta, ganghreina og taumlétta töltara. Slíkir hestar mótast bezt í hestaleigum og hestaferðalögum. Aldrei er nóg framboð af slíkum hestum, meðan flóknir og örgeðja keppnishestar seljast hægt.

Sala á hrossum til útlanda er aðeins upphafið af viðskiptum, sem hlaða utan á sig. Menn telja sig þurfa að koma til Íslands og fara í hestaferðir. Menn kaupa íslenzk reiðtygi, föt, bækur og myndbönd. Menn semja við þjálfara og reyna að leita uppi gúmmískó.

Þótt aldagömul hefð sé fyrir, að hrossakaupin sjálf séu utan við lög og rétt og skatta, eru allir aðrir þættir þessara viðskipta uppi á borðinu og leggja drjúgt með sér til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Gróðinn af hestamennsku flyzt þannig um allt þjóðfélagið.

Bílaflotinn á landsmóti hestamanna í Eyjafirði var dýrasti floti, sem saman hefur verið kominn á einn stað í landinu fyrr og síðar. Drekarnir með kerrurnar báru vitni um, að hestamennska í víðtækum skilningi er að ryðja sér til rúms sem meiri háttar atvinnuvegur.

Nokkrir Bandaríkjamenn, sem ekki áttu heimangengt, notuðu landsmótstímann til að skeggræða á Netinu, hvort nota megi Ljónshjarta sem hestsnafn.

Jónas Kristjánsson

DV