Eigi skal gráta Björn bónda

Greinar

Ólöf ríka skildi strax, að ekki þýddi að velta sér upp úr því, sem tapazt hafði, heldur skipti mestu að safna liði fyrir næstu orrustu. Hún hefði strax hætt að gráta hvalveiðar og snúið sér að verndun annars veiðiskapar, sem nú er okkur miklu brýnna og mikilvægara verkefni.

Seint og um síðir eru íslenzk og norsk stjórnvöld að komast að raun um, að barátta fyrir hvalveiðum er löngu orðin vonlaus. Hvorugt landið lætur sjávarútvegsráðherra sinn taka þátt í fundum ársþings Alþjóða hvalveiðiráðsins í Reykjavík í þessari viku.

Þetta endurspeglar, að embættis- og ráðamenn hafa skilið, að hvalastríðið er tapað á vettvangi Alþjóða hvalveiðiráðsins og vísindanefndar þess. Það endurspeglar líka, að ekki hefur verið tekið neitt mark á óbeinum hótunum okkar manna um stofnun nýs hvalveiðiráðs.

Þegar Íslendingar undirrituðu sitt gamla baráttumál, hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, var ekki gert ráð fyrir þeim möguleika, að Alþjóða hvalveiðiráðið gæti orðið okkur andsnúið. Lagakróka- og orðhengilsmenn okkar finna enga leið úr þeim ófyrirséða vanda.

Íslenzka þjóðin er hins vegar þeirrar skoðunar, að við eigum að hefja hvalveiðar að nýju, hvað sem hver segir. Hetjuskapurinn verður ekki skafinn af þjóð Þorgeirs Hávarssonar, sem frægur varð af að hanga lengi dags í hvönn og fyrirgaf aldrei björgunarmanni sínum.

Í stað þessarar hugsjónar er brýnt, að Íslendingar snúi sér af alefli að verndun réttar fiskimanna til að veiða fisk. Umhverfisverndarfyrirtæki á borð við Grænfrið eru farin að skipuleggja fiskveiðar við Kaliforníu og lýsa skoðunum á loðnuveiði við Norður-Noreg.

Orrustan um rétt til fiskveiða verður ekki eins erfið og orrustan um hvalveiðar. Fiskur skipar ekki sama rúm og hvalur og selur gera í sálarlífi heilla þjóða. Röksemdafærsla, sem mætir daufum eyrum, þegar talað er um hval, kann að heyrast, þegar talað er um fisk.

Gegn okkur verður teflt þeirri skoðun, að veiðiskapur eigi aðeins að þolast sem sjálfsþurftarbúskapur frumstæðra þjóða, en ekki sem nútíma markaðsbúskapur. Gegn okkur verður teflt þeirri skoðun, að skipulagðar markaðsveiðar taki mat frá öðrum í fæðukerfi sjávar.

Ef menn halda, að þetta sé grín, ættu þeir að kynna sér ný lög í Kaliforníu um rétt fiska gegn rétti veiðimanna. Upp er vaxin kynslóð, sem telur, að matur eigi að koma úr pökkum, og heldur, að lífsstíll sé ókeypis og fáist, þótt allir stundi handíð af ýmsu tagi.

Við munum í framtíðinni þurfa að hafa fyrir því að sannfæra umheiminn um, að skipulagður veiðiskapur okkar sé eðlilegt lifibrauð okkar. Við þurfum að gera bandalag við aðrar fiskveiðiþjóðir um að koma fiskveiðisjónarmiðum á framfæri á öflugan og sannfærandi hátt.

Vísir er kominn að slíku samstarfi. Þann vettvang eigum við að efla sem mest við megum. Við þurfum á því að halda, að umheimurinn virði sjónarmið okkar, því að við ætlumst til, að hann kaupi af okkur fiskafurðir. Líffstíll okkar er alveg upp á umheiminn kominn.

Sem þjóð eigum við að hætta að eyða orku, tíma og fé í vonlaust stríð um hval, en snúa okkur af sama krafti að stríði, sem við getum hugsanlega unnið, en vinnum ekki, ef við bítum okkur fast í að heyja stríð fortíðarinnar. Okkur ber að snúa vörnum okkar að fiskveiðum.

Í lífsstríði sem öðru stríði skiptir máli að átta sig á, hvenær skuli hætta að berja hausnum við stein og fara að snúa sér að baráttu, sem getur skilað árangri.

Jónas Kristjánsson

DV