Tvíhliða viðræður Íslands við Evrópubandalagið um nýjan eða breyttan viðskiptasamning verða næsta verkefni okkar á sviði utanríkisviðskipta, ef evrópska efnahagssvæðið er úr sögunni í núverandi mynd, svo sem líkur benda til eftir rothögg Evrópudómstólsins.
Evrópubandalagið breytir ekki stjórnarskrá sinni til að standa við samninginn um evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar kann það að líta mildum augum á, að efni hans verði tekið upp í tvíhliða fríverzlunarsamningum við þau ríki, sem ekki hugsa sér að ganga í bandalagið.
Raunar er Evrópubandalaginu siðferðilega skylt að leysa málið eftir að hafa tvisvar sinnum klúðrað því. Sú verður væntanlega meginforsendan, sem samningamenn okkar gefa sér, þegar þráðurinn verður tekinn upp að nýju í tvíhliða eða marghliða viðræðum.
Ljóst er, að Ísland mun ekki stíga lengra skref til evrópskrar sameiningar en stigið var með hinu andvana fædda efnahagssvæði. Við fórum þar út á yztu nöf, enda er engin þjóðarsátt um árangur þeirrar göngu, heldur er þjóðin klofin í herðar niður í afstöðu til hennar.
Við munum til dæmis ekki geta sætt okkur við, að slátrari evrópska efnahagssvæðisins, Evrópudómstóllinn, fái meiri lögsögu yfir Íslandi. Enginn pólitískur vilji er á Íslandi fyrir slíku afsali fullveldis. Við viljum áfram hafa lykilinn að gæfu okkar í eigin höndum.
Við munum ekki feta braut Svía, Finna og Austurríkismanna inn í Evrópubandalagið. Við erum fámennari þjóð og getum ekki leyft okkur að ganga eins langt í afsali fullveldis. Okkar fullveldi er ekki sterkara en svo, að við þurfum að vaka yfir því nótt og dag.
Evrópubandalagið hefur marga kosti. Það hefur forustu í ýmissi lagasetningu, til dæmis í umhverfismálum. Það er að koma á fót Evrópumynt, sem við ættum að taka upp í stað krónunnar. Það er þó fyrst og fremst frjáls markaður, sem við viljum vera í tengslum við.
Evrópubandalagið hefur líka galla, sem fæla okkur frá. Það er skriffinnskubákn, sem hefur tilhneigingu til að heyja viðskiptastríð út á við. Það er bákn, sem tekur örlagaríkar ákvarðanir, þar sem kvartmilljón manna á Íslandi skipta jafnlitlu og íbúarnir í Cardiff í Wales.
Við viljum ekki vera eins og Cardiff í Wales. Við viljum reka sérstakt þjóðfélag, alveg eins og Litháar og Króatar. Við viljum þetta, þótt leiða megi rök að því að ódýrara væri að haga málum á annan hátt. Við teljum, að þjóðríki sé heppileg eining, þótt lítil sé.
Nú hefur nýtt stríð tekið við af kalda stríðinu. Það er stríðið milli þjóðríkja og sambandsríkja, þar sem deyjandi Sovétríki, deyjandi Júgóslavía, Bandaríkin og forstjóri Sameinuðu þjóðanna mynda bandalag til að reyna að koma í veg fyrir fæðingu þjóðríkja.
Þetta bandalag er dauðadæmt, því að hinn stríði straumur sögunnar liggur í átt til þjóðríkja, sem vilja vera eigin gæfu smiðir, en eru fús til samstarfs við aðra um fríverzlun og önnur hagkvæmnismál, sem ekki skerða fullveldi þjóðríkjanna að neinu marki.
Evrópubandalagið er punkturinn eftir Evrópustríðin, eldra fyrirbæri en vakning þjóðríkja, sem einkennir nútímann. Það hefur í krafti stærðar öðlazt sitt eigið hreyfiafl, sem gerir það eftirsóknarvert fyrir marga, svo sem Svía og Finna. Við erum ekki í þeim aðdáendahópi.
Þegar Svíar og Finnar verða orðnir enskumælandi Evrópumenn, ætla Íslendingar áfram að vera íslenzkumælandi Íslendingar og sinnar eigin gæfu smiðir.
Jónas Kristjánsson
DV