Auglýsingar í fjölmiðlum sýna, svo ekki verður um villzt, að Íslendingar eru að flytjast milli tímabila í hagsögunni. Að loknum eignatíma er kominn áskriftar- eða afnotatími. Menn kaupa ekki lengur bíl og fasteign með útborgun, heldur kaupa menn afnot eða áskrift að bíl og húsi án þess að eiga krónu.
Þetta hefur verið að gerast víðar á Vesturlöndum, enda ráfar alls staðar fjármagn um banka og sjóði í leit að skuldurum. Menn safna ekki lengur fé til framtíðarkaupa, heldur afla sér aðstöðu til að njóta dauðra hluta hér og nú í samræmi við tekjur og lífsstíl, sem þeir vilja hafa hverju sinni.
Lengi hefur tíðkazt í menningu, afþreyingu og fjölmiðlun, að menn borgi fast gjald fyrir aðgang að þjónustu, fyrir blaðið og sjónvarpið, fyrir símann og bandbreiddina, jafnvel fyrir leiksýningar og hljómleika. Farsíminn sem áhald fæst án greiðslu, ef menn binda sig til viðskipta í tiltekinn tíma.
Það ræður hins vegar úrslitum um, að nýr tími er kominn, þegar meginþættir í lífi fólks á borð við húsnæði og bíl falla inn í þetta kerfi, þar sem lánað er 100% og menn reikna út greiðslubyrði á mánuði, rétt eins og áskriftar- eða afnotagjald. Menn lifa framvegis fyrir greiðslubyrðina.
Fljótlega munu nýjar kynslóðir reikna með að fá ekki bara símann frítt, heldur líka tölvuna, búslóðina, fötin, allt út á föst viðskipti við tiltekinn aðila um tiltekinn tíma. Fyrir allt þetta verður greidd leiga og fólk mun fram og aftur reikna út, hvað það hafi ráð á mikilli greiðslubyrði.
Hingað til hefur verið talið farsælt og hagsýnt að hafa borð fyrir báru, þegar lagt er í fjárfestingar. Framvegis verður enn meiri þörf á slíku, þegar menn skulda meira eða minna allt það, sem þeir nota. Breytingar á stöðu efnahagsmála hafa miklu meiri áhrif á þá, sem hafa allt undir í taflinu.
Efnahagslífið er ekki stöðug og jöfn hreyfing upp á við. Inn á milli koma dýfur. Stundum fer saman, að söluverð íbúða lækkar í kreppu og að menn missa vinnu í kreppu. Þá standa menn andspænis því, að fjárhagsdæmi tilverunnar stendur ekki lengur neinum fótum í veruleika. Menn fljúga í gjaldþrot.
Við þetta verður ekki ráðið. Mikið framboð á ódýru lánsfé er orðið að náttúrulögmáli. Ennfremur er ljóst, að til sögunnar eru komnar kynslóðir, sem líta öðrum augum á dauða hluti en fyrri kynslóðir. Þær nýju kæra sig ekki um að eiga hluti á þurru, eru bara að kaupa sér afnot eða áskrift eða aðgang.
Menn þurfa hins vegar að læra að umgangast þetta kerfi og átta sig á, að miklu meira borð þarf að vera fyrir báru en í fyrra kerfi, svo að ekki fari allt á hvolf, þegar hvessir.
Jónas Kristjánsson
DV