Talsmenn flokkanna, sem halloka fóru í alþingiskosningunum, hafa velt fyrir sér reikningsdæmum um, að fylgið hafi ekki glatazt, heldur sé það í eins konar láni hjá nýjum og nýlegum flokkum. Þannig komast þeir hjá að fjalla um sjálft efni málsins, fylgistapið.
Á þennan hátt eignar Sjálfstæðisflokkurinn sér fylgi Borgaraflokksins, Alþýðubandalagið eignar sér fylgi Kvennalistans og Framsóknarflokkurinn eignar sér fylgi Stefáns Valgeirssonar. Útkoman er, að enginn gömlu flokkanna hafi í rauninni tapað neinu.
Kenningin um lán á fylgi er studd fleiri dæmum. Meðal annars er sagt, að Alþýðuflokkurinn hafi í rauninni ekki grætt neitt í alþingiskosningunum, heldur hafi hann fengið skilað til baka Vilmundarfylgi, sem hafi verið í láni hjá Bandalagi jafnaðarmanna.
Dæmið er þó ekki svona einfalt. Við hvarf Vilmundarfylgisins úr Alþýðuflokknum lækkaði þingmannatala flokksins úr fjórtán í sex. Í síðustu kosningum tókst flokknum aðeins að ná til baka hálfum mismuninum eða fjórum þingmönnum af átta, að fara upp í tíu.
Því má búast við, að hinum gömlu flokkunum muni reynast erfitt að ná til baka fylgi, sem þeir segjast hafa lánað nýjum og nýlegum flokkum. Kjósendur eru ekki eins traust fasteign og þeir voru áður fyrr. Skynsamlegra er að líta á fylgi sem lausafé en sem fasteign.
Dæmi Stefáns Valgeirssonar er tiltölulega einfalt. Ef flokkur hans býður ekki fram í næstu alþingiskosningum, veltur á ýmsu, hvert fylgið fer. Líklegast er, að það dreifist víða og leiti einkum til þeirra flokka, sem þá vekja mesta athygli, en ekki til Framsóknarflokksins.
Ekki styður það kenningarnar um lán á fylgi, að spenna og úlfúð léku lausum hala í kosningabaráttu Stefánsmanna og Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Erfitt er að sjá fyrir, að gróið verði um heilt, þegar næst verður gengið til kosninga.
Talsmenn Alþýðubandalagsins hafa hagað sér greindarlegar gagnvart því fylgi, sem þeir telja sig hafa lánað Kvennalistanum. Þeir leggja sig í líma við að vera almennilegir við konurnar, styðja málefni þeirra og vekja athygli á þeim í Þjóðviljanum. Þeir bíða færis.
Þeir hafa hagað sér gagnvart Kvennalistanum eins og Alþýðuflokkurinn hefur hagað sér gagnvart forustuliði Bandalags jafnaðarmanna. Hugsanlegt er, að þeir nái svipuðum árangri, ef Kvennalistinn hættir, um það bil helmingi fylgisins, en hitt dreifist eftir aðstæðum.
Forustumenn Sjálfstæðisflokksins eru ekki á slíkum buxum. Þeir sýna Borgaraflokknum fullkomna óvild. Yfirlýsingar um, að ekki komi til mála að fara í stjórn með honum, eru eitt dæmið um gamla heygarðshornið. Flokkseigendafélagið fyrirgefur aldrei neitt.
Gaman verður að sjá, hvernig forustumönnum Sjálfstæðisflokksins tekst að endurheimta lánið á fylgi, þegar komið er að næstu kosningum og annar flokkurinn hefur verið innan stjórnar og hinn utan. Refsingarstefna hins reiða guðs mun þá koma að litlu gagni.
Ef Borgaraflokkurinn býður þá ekki fram, er líklegast, að ráðamenn Sjálfstæðisflokksins telji sér áfram skylt að halda stuðningsmönnum Borgaraflokksins frá áhrifum. Fylgi hans muni því dreifast til Alþýðuflokksins og annarra flokka fremur en til Sjálfstæðisflokksins.
Af þessu má ráða, að þeir flokkar, sem töpuðu fylgi, mega hafa sig alla við og vera heppnir að auki, ef þeir ætla að eiga von í að erfa helming þess til baka.
Jónas Kristjánsson
DV