Ein byggð ­ einn kjarni

Greinar

Sveitarfélög á Íslandi hafa yfirleitt sameinazt á þann hátt, að sveitir hafa sameinazt sínum kaupstað. Þjónustukjarninn er þungvigt sameiningarinnar. Það auðveldar sameiningu, ef ljóst er, hver sé kjarni hennar, en flækir hana, ef miðpunktarnir eru fleiri.

Þannig geta hreppar Mýrasýslu sameinazt Borgarnesi, Dalir sameinazt Búðardal, Vestur-Húnavatnssýsla sameinazt Hvammstanga, Austur-Húnvatnssýsla sameinazt Blönduósi, Skagafjörður sameinazt Sauðárkróki og Austur-Skaftafellssýsla sameinazt Höfn í Hornafirði.

Dæmi eru um, að sveitarfélög hafi sameinazt á öðrum forsendum. Þannig voru Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður sameinaðir í einn þrískiptan kaupstað. Það mun valda erfiðleikum, að enginn einn staðanna er sjálfkjörin þungamiðja hins nýja sveitarfélags.

Við slíkar aðstæður má búast við togstreitu. Í umræðum fyrir sameininguna kom fram, að sumir óttuðust stærð og veldi Neskaupstaðar, sem er öflugastur staðanna að sinni. Gagnrýnendur vöruðu við, að völd og áhrif hyrfu frá Eskifirði og Reyðarfirði.

Neskaupstaður er hins vegar afskekktastur staðanna. Reyðarfjörður er nær umheimi vegakerfisins og virðist líklegastur vettvangur stóriðju. Hún mun færa þungamiðjuna. Hvers konar tilfærsla af slíku tagi mun valda óánægju þeirra, sem fjarlægjast valdið.

Jarðgöng geta tengt austfirzku kaupstaðina betur. En þau leysa ekki það félagslega og pólitíska og fjárhagslega vandamál, að sérhvert sveitarfélag þarf að hafa sinn kjarna. Við sjáum þetta af erfiðum rekstri nýs sveitarfélags umhverfis jarðgöngin á Vestfjörðum.

Sameining nokkurra kauptúna við Ísafjörð hefur leitt til ágreinings, endurtekins klofnings fyrri samherja og mikils kostnaðar í rekstri. Þar er hver silkihúfan upp af annarri í formi verkefnisstjóra. Óvenjulega margir félagsmálaberserkir eru á biðlaunum hjá bænum.

Austfirðingar verða að gæta þess, að ekki fari fyrir þeim eins og Vestfirðingum, að innri átök valdi kostnaði og sogi til sín orku. Því sundurleitari, sem sveitarfélög eru, þeim mun meiri líkur eru á, að fólk nái litlu samkomulagi um, hvernig málum skuli hagað.

Sameining sveitarfélaga er eðlileg afleiðing bættra samgangna og meiri krafna fólks um þjónustu í héraði. Við skjótumst milli landshluta á skemmri tíma en áður milli hreppa. Flókið líf nútímamannsins kallar á ramma, sem sprengja forsendur gamla hreppakerfisins.

Menn vilja dreifa valdi frá þungamiðju ríkisvaldsins í Reykjavík og þurfa því um leið að hafa burði til að taka við hlutverkum, sem aðeins verða borin uppi af tiltölulega stórum samfélagseiningum. Þetta hefur hleypt miklum krafti í hugmyndafræði sameiningar.

Það léttir verkefnið, ef menn átta sig á, að ein þungamiðja er óhjákvæmileg niðurstaða sérhverrar sameiningar. Það getur tekið tíma og kostað fé að komast að raun um þetta félagslega lögmál. Bezt er að horfast í augu við það strax og þekkja niðurstöðuna.

Því meira, sem völd og þjónusta eru sameinuð í einum þéttbýlisstað í hverju nýju sveitarfélagi, þeim mun meiri líkur eru á, að byggðin haldi velli í samkeppni við stóru seglana, sem soga til sín fólk. Þeim mun líklegra er, að byggðafjármagn komi að ætluðum notum.

Því fjölmennari sem nýju sveitarfélögin verða og því eindregnari kjarna sem þau hafa, þeim mun meiri líkur eru á, að þau standist brotsjói byggðaröskunar.

Jónas Kristjánsson

DV