Einangrun og ágreiningur

Greinar

Viðbrögðin við árás Bandaríkjanna á Líbýu hafa leitt í ljós djúpan ágreining milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. Bandarískir ráðamenn, fjölmiðlar og skoðanakannanir styðja árásina, en evrópskir ráðamenn, fjölmiðlar og skoðanakannanir eru henni andvígir.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessum og öðrum ágreiningi Vesturlanda, sem hefur aukizt síðan Reagan tók við stjórnartaumunum í Washington. Ágreiningurinn er þó báðum að kenna og báðir verða að leggja að sér við að reyna að hafa hemil á honum.

Athyglisvert er, að hryðjuverk hafa aðallega verið framin í Vestur-Evrópu og Miðjarðarhafslöndunum, að þau hafa mest verið rakin til annarra hryðjuverkamanna en Kaddafis og að þau hafa komið meira niður á Evrópumönnum en á Bandaríkjamönnum.

Samt voru viðbrögð Bandaríkjastjórnar miklu harðari en stjórna vesturevrópskra ríkja og beindust eingöngu að Kaddafi, en ekki að Assad í Sýrlandi, sem er þó mun hættulegri. Þetta áttu Evrópumenn erfitt með að skilja og neituðu Bandaríkjunum um stuðning í Líbýumálinu.

Bandaríkjamenn líta aftur á móti á Vestur-Evrópumenn sem lélega bandamenn, er ekki sé hægt að treysta. Þeim sárnar sérstaklega, að komið hefur í ljós, að um tíma gilti leynisamningur milli Frakka og hryðjuverkastjórna um, að Frakkland hefði af þeim sérfrið.

Evrópumenn hafa þungar áhyggjur af, að Reagan hafnar hverju tilboði Gorbatsjovs Sovétleiðtoga um takmörkun vígbúnaðar, til dæmis betra tilboði en áður um eftirlit. Þeir vilja kanna þessi tilboð nánar, en Bandaríkjamenn vara þá við að láta blekkjast.

Ágreiningsefnin eru mörg og hafa tilhneigingu til að hlaða utan á sig. Um leið vill hið jákvæða gleymast. Spánverjar kusu að vera áfram í Atlantshafsbandalaginu, Danir að vera áfram í Efnahagsbandalaginu og Hollendingar að taka við eldflaugunum.

Samt er í Bandaríkjunum vaxandi trú á, að Vestur-Evrópa eigi að sigla sinn sjó. Hún vilji ekki takast á herðar skyldur vegna bandalags Vesturlanda. Því sé réttmætt að kveðja bandaríska hermenn frá álfunni og beina varnarmættinum að ameríska virkinu sjálfu.

Bandaríkjamenn hafa verið að flytjast suður og vestur. Reagan kemur frá Kaliforníu, þar sem menn horfa út á Kyrrahafið, en ekki Atlantshafið. Vestur-Evrópa er ekki eins þungvæg í heimsmynd Bandaríkjamanna og hún var fyrir svo sem aðeins aldarfjórðungi.

Bandaríkjamenn hafa löngum verið fremur einangraðir og átt erfitt með að skilja aðrar þjóðir. Ekki bætir úr skák þeirra, að útlendingar geta yfirleitt talað ensku og spara Ameríkönum að læra önnur mál. Sá sparnaður hefur reynzt og mun áfram verða Bandaríkjunum dýr.

Til þess að skilja fólk, verður að læra mál þess, tala við það og fylgjast með fjölmiðlum þess. Þeir, sem einskorða sig við enska tungu, fá skekkta og ófullkomna mynd af stöðu mála. Bandaríkjamenn vissu til dæmis ekkert, hvað var að gerast í Íran, þegar keisarinn féll.

Þótt kenna megi Vestur-Evrópu margt, sem aflaga hefur farið í samskiptum Vesturlanda, má rekja aukningu vandamálsins á síðustu árum einkum til þess, að í Hvíta húsinu situr hugsjónamaður, sem hefur tilhneigingu til að horfa á heiminn í svörtu og hvítu.

Hagsmunir Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu eru þó svo samtvinnaðir, að í rauninni er þar ekkert rúm fyrir einangrunarstefnu eða einstefnu, ef vel á að fara.

Jónas Kristjánsson

DV