Einar Benediktsson

Veitingar

Svartfuglinn á Einari Benediktssyni var lakari en í Óðinsvéum og saltfiskurinn lakari en í Laugaási, eins og við er að búast af stað með stæl. Slíkir leggja jafnan meiri áherzlu á umbúðir en innihald. Einar Benediktsson við Hallærisplanið er fremur þemahús en veitingahús.

Nútíminn vil þemu af þessu tagi, sjaldan með góðum mat eins og Hard Rock Café, oftast með vondum mat og stundum afspyrnu vondum eins og Planet, Hollywood og Fashion Café, sem fara sigurför um heiminn. Einar Benediktsson býður yfirleitt ekki vondan mat og verður þar af leiðandi seint eins vinsæll.

Þema Einars Benediktssonar er skáldið sjálft, gáfaðasti aldamótamaðurinn. Matseðillinn er skemmtilegur, með drykkjusögum af Einari og nokkrum ljóðum hans, uppsettur út í kúrekahött, með slöngvivað, skrítnum römmum og undarlegum fyrirsagnastungum.

Veitingasalirnir tveir eru á annarri hæð í gömlu húsi, annar fyrir reyklausa og hinn fyrir reykfólk. Málaðir veggir, viðargólf, ljósakrónur, gifslistar og hvítlakkaðar hurðir falla vel að húsinu, en ofur-gluggatjöld og risamálverk af þekktum Íslendingum síður.

Notaleg eru brún viðarborð á steypujárnsfótum, með ofurlitlum borðlömpum, tauþurrkum og óbrjótanlegum kaffiglösum, sem tíðkuðust í sveitinni í gamla daga og þykja nú smart, af mér óskiljanlegum ástæðum. Lágvær dósatónlist truflaði ekki.

Nokkrir réttir breytast frá degi til dags, tveir forréttir og tveir aðalréttir, einnig salat, fiskur og grænmetisréttur. Þar fyrir utan er fjölbreyttur og forvitnilegur fastaseðill og ágætur vínlisti.

Skemmtilegasti rétturinn var svokölluð humar- & skelfiskveisla Einars Ben. á hrokuðu fati. Þar var furðulega meyr skelfiskur, öðuskel, bláskel og hörpuskel, einnig humar og risarækjur, smokkfiskur og ferskvatnskrabbi.

Japanskt hvalasashimi var líka gott, ljós hrefna og dökkur höfrungur með piparrót og engifer, borið fram með prjónum. Laxatartar með hefðbundnu meðlæti, eggjarauðu, kapers og rauðlauk, var glæsilegt, fallegt og gott. Stökkt salat með hunangsteiktum kjúklingum var fremur skrautsýning en matur, en kjúklingurinn var ekki þurr.

Þegar hér var komið sögu virtist góði kokkurinn hafa örmagnazt og farið heim, því að við tóku örbylgjuofnalegir aðalréttir. Minnisstæðastur var saltfiskur, sem hafði gleymzt að útvatna, saltur og rammur, en samt sagður að hætti Baska.

Beðið var um svartfugl léttsteiktan, en hann kom næstum grásteiktur, gríðarlega oregon-kryddaður og ekki nógu meyr. Staðlað meðlæti, ostbakaðar kartöfluþynnur, fylgdi líka rósmarínlegnum lambahryggvöðva, sem var sæmilegur matur, en svo sem ekki bæjarferðar virði.

Hringlaga sítrónuskyrterta með bláberjasósu var frambærileg, einnig svonefnd afmælisterta Einars, ostakaka að hálfu, með vanilluósu. Kaffi var gott, meira að segja espresso.

Verðið er uppalegt, svo sem tíðkast á stöðum með stæl, aðalréttir á tæpar 1.900 krónur, þríréttuð máltíð á tæpar 3.700 krónur og kaffi eftir mat á 200 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV