Liðin er sú tíð, að einu fyrirtæki var gefið einkaleyfi á smásölu mjólkur og mjólkurvöru í Reykjavík. Þessi kreppuarfur var lagður niður, þegar hversdagsleg hagfræði hélt innreið sína í þjóðmálin og menn áttuðu sig á, að einkaleyfi eru þjóðhagslega óhagkvæm.
Þannig hafa einkaleyfi í farþegaflugi verið lögð niður, bæði innanlands og milli landa. Afnám þeirra var enn harðsóttara en í mjólkinni, því að stjórnmálamenn allra flokka gættu hópum saman sérhagsmuna einkaleyfishafans og neituðu að gæta almannahagsmuna.
Enn eru til leifar einkaleyfa. Til dæmis eru sérleyfi veitt til fólksflutninga með áætlunarbílum, þótt hagfræðin segi, að þau leiði til hærri fargjalda. Slík sérleyfi yrðu aldrei tekin upp nú á tímum, en skrimta enn, af því að erfitt er að losna við gamla hagsmunagæzlu.
Stundum hafa fjölþjóðlegir samningar og samtök komið íslenzkum almannahagsmunum til hjálpar gegn sérhagsmunum. Þannig neyddust ráðamenn þjóðarinnar til að afnema einkaleyfi í farþegaflugi og þannig verður barizt gegn einkaleyfi Íslenzkrar erfðagreiningar.
Einkaleyfum er stundum skipt upp milli margra aðila eftir ákveðnum reglum. Sérleyfi áætlunarbíla og leigubíla eru gömul dæmi um það. Þekktasta dæmið er kvótinn í sjávarútvegi, þar sem auðlindum hafsins var skipt upp og þær gefnar þröngum hópi útgerðarfyrirtækja.
Innan ýmissa stjórnmálaflokka er vaxandi andstaða við þetta framsal auðlinda, stofnuð hafa verið samtök gegn því og boðað nýtt stjórnmálaafl með andstöðu við kvótann að hornsteini. Engum blöðum er um að fletta, að einkaleyfi kvótakerfisins á í vök að verjast.
Svo snýst dæmið snögglega við. Ráðamenn þjóðarinnar hafa ákveðið að gefa afkvæmi bandarísks fyrirtækis einkaleyfi til að reka miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála. Þar á ofan gerist það enn furðulegra, að almenningur styður gjöfina samkvæmt skoðanakönnun.
Þetta einkaleyfi er í ætt við hin gömlu og úreltu einkaleyfi, sem rakin voru hér að ofan og jafngildir því, að ríkið taki upp afturhvarf til fortíðar og veiti til dæmis einum aðila einkaleyfi til rekstrar útvarps og sjónvarps. Enda stenzt einkaleyfið tæpast fjölþjóðareglur.
Einkaleyfi Íslenzkrar erfðagreiningar er óskylt einkaleyfum þeim, sem uppfinningamenn geta sótt um hjá þar til gerðum einkaleyfastofum hins opinbera. Íslenzk erfðagreining hefur ekki sótt um einkaleyfi af því tagi, enda er ekki um neina uppfinningu að ræða.
Ef ráðamenn þjóðarinnar telja, að veiting einkaleyfis geri miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála verðmætari en ella, geta þeir reynt að bjóða út leyfið og afhent þeim, sem bezt býður. Það er algild aðferð markaðshagkerfisins til að finna, hvert sé verðgildi hlutanna.
Útboð eru eina hagfræðilega rétta aðferðin til að finna hversu verðmætar ríkis- eða þjóðareigur eru. Þannig er skynsamlegt að bjóða út veiðikvótann og gagnagrunninn, svo og að haga útboðsreglum þannig, að sem allra flestir geti boðið í hann sem allra hæst verð.
Hitt er svo annað mál, hvort ríkið á það, sem það hyggst gefa gæludýri sínu frá Delaware í Bandaríkjunum, en ætti að bjóða út. Samkvæmt lögum frá í fyrra eiga sjúklingar upplýsingar í sjúkraskrám sínum, en ekki hinar opinberu stofnanir, sem geyma skrárnar.
Sé um að ræða verðmæta eign, sem ríkið má ráðskast með, er ekkert vit í öðru en að efna til útboðs gagnagrunnsins á þann hátt, að sem allra hæst tilboð berist.
Jónas Kristjánsson
DV