Einkaréttur og ríkisstyrkur.

Greinar

Gamansamur framkvæmdastjóri Flugleiða tók fyrsta leiðara þessa sameinaða dagblaðs og sneri honum upp á sameiningu Flugfélagsins og Loftleiða fyrir rúmum átta árum. Grein hans með árnaðaróskum birtist hér í blaðinu á miðvikudaginn.

Flugleiðamenn telja sameiningu síðdegisblaðanna vera staðfestingu þess, að rétt hafi verið að sameina flugfélögin tvö á sínum tíma. Í stórum dráttum hafi sömu rök legið að baki hjá flugfélögunum og nú hjá dagblöðunum.

Gamansemina mætti framlengja með því að ímynda sér, að Flugleiðir dreifðu nú fréttatilkynningu, þar sem fram kæmi, að þær mundu í fleiri atriðum en sameiningunni einni hafa sama hátt á og þetta sameinaða dagblað.

Framkvæmdastjórar Flugleiða gætu þá enn leitað fanga í leiðurum blaðsins og snúið upp á sjálfa sig. Til þess er kjörinn leiðarinn frá áðurnefndum miðvikudegi. Í breyttri útgáfu Flugleiða mundu upphafsorðin þá hljóða:

“Ákveðið hefur verið, að Flugleiðir æski hvorki ríkisstyrks né þiggi hann, ef boðinn verður. Enda getur flugfélag því aðeins talizt óháð og frjálst, að það sé ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera.”

Samlíking Dagblaðsins & Vísis annars vegar og Flugleiða hins vegar hlýtur að vera afar ófullkomin, nema samræming verði einnig á þessu sviði. Enda mundu Flugleiðir þá losna við mikið af þeirri gagnrýni, sem þær hafa sætt.

Svo gamanseminni sé haldið áfram, mætti hugsa sér, að á móti þessari aðlögun Flugleiða að stefnu hins sameinaða dagblaðs komi önnur aðlögun blaðsins að stefnu flugfélagsins. Upphafsorð bréfs blaðsins til stjórnvalda mundu þá hljóða svo:

“Vegna smæðar hins íslenzka dagblaðamarkaðar förum við vinsamlegast fram á, að ekki verði leyfð sala annarra blaða en Dagblaðsins & Vísis á Akureyri, Ísafirði, Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Amsterdam og nokkrum fleiri stöðum.

Augljóslega veldur það ýmsum rekstrarerfiðleikum, ef blaðið þarf að sæta því, þegar flogið er með það til Akureyrar í hádeginu, að með morgunfluginu hafi fjögur önnur dagblöð verið flutt þangað í beinni samkeppni við okkur …”

Bréfið gæti auðvitað verið lengra og átakanlegra. En þar skilur á milli Flugleiða annars vegar og Dagblaðsins & Vísis hins vegar, að blaðið er alveg ófáanlegt til að setja ráðamenn þjóðarinnar í slíkan bobba.

Í staðinn yrðum við að biðja Flugleiðir um að feta einnig á þessu sviði braut blaðsins, svo að samlíkingin geti orðið fullkomin. Mundi þá áðurnefnd fréttatilkynning Flugleiða hljóða svo við mikinn fögnuð þjóðarinnar:

“Ákveðið hefur verið, að Flugleiðir æski hvorki ríkisstyrks né þiggi hann, ef boðinn verður. Enda getur flugfélag þá aðeins talizt óháð og frjálst, að það sé ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera.

Jafnframt hafa Flugleiðir afsalað sér öllum einkaleyfum til áætlunarflugs innan lands og utan. Fyrirtækið telur eðlilegt, að nokkur önnur flugfélög fái líka að keppa á þessum flugleiðum, hugsanlega á öðrum tímum dagsins.”

Flugfélög annars vegar og dagblöð hins vegar geta sameinazt til að bæta stöðu sína. Samanburðurinn nær þó skammt, ef flugfélagið heimtar bæði einkarétt og ríkisstyrk, en dagblaðið hafnar hvoru tveggja. Þá verður gamansemin að alvöru.

Jónas Kristjánsson

DV