Einkarétturinn molnar.

Greinar

Frelsun sjónvarpsins hefur gengið bærilega vel og afskiptalítið af opinberri hálfu. Svo virðist sem siðferðisstyrkur einokunarinnar hafi lamazt svo, að ríkisútvarpið, síminn og lögreglan geta ekki haldið uppi lögum á þessu sviði.

Einkasjónvarpið hefur þróazt úr klúbbum innan fjölbýlishúsa yfir í hrein fyrirtæki, sem leggja þræði í jörð, stefna að þráðlausu sjónvarpi milli hæða og húsa og heimta meira að segja dulbúið afnotagjald af viðskiptavinunum.

Þetta er auðvitað kolólöglegt, enda hafa sjaldan heyrzt þynnri varnir en þær, sem hinir hraðlygnu sjónvarpsstjórar hafa á boðstólum. En þeir hafa komizt upp með þetta, af því að siðferðisstyrkur einokunarinnar er að bresta.

Til skamms tíma leituðu útvarp og sími uppi frjálsar hljóðvarpsstöðvar, þótt þær hefðu hvorki auglýsingar né afnotagjald, og fengu þær gerðar upptækar. Fróðlegt væri að prófa, hvort afskiptasemin yrði nú hin sama.

Áhugamenn um frjálsan útvarpsrekstur hafa lengi barizt án verulegs árangurs. Stjórnmálamenn eru að velta fyrir sér hugmyndum um aðra einokunarrás eða landshlutahljóðvarp, er yrði að verulegu leyti á valdi sveitarstjórnanna.

Almenningur hefur í skoðanakönnunum hvað eftir annað lýst eindregnu fylgi við afnám einokunar útvarps, bæði hljóðvarps og sjónvarps. Í síðustu könnun Dagblaðsins voru af þeim, sem skoðun höfðu, tveir þriðju með frelsi og einn þriðji andvígur.

Svo virðist sem frelsisþróun sjónvarps sé farin langt fram úr hljóðvarpinu. Myndsnældurnar hafa sloppið fimlega gegnum nálarauga einokunarinnar og eru orðnar að hornsteini lokaðra og hálfopinna sjónvarpskerfa.

Þegar borgarráð Reykjavíkur samþykkti með fyrirvörum sjónvarpsþræði í jörð, var það bara að feta í fótspor annarra sveitarstjórna, sem hafa látið slíkt afskiptalaust og jafnvel haft með hönd í bagga. Kapalkerfin eru að vinna sér hefð.

Ef stöðva ætti notkun þráða í Reykjavík, yrði að gera slíkt hið sama úti á landi, þar sem sveitarstjórnarmenn eru víða í fararbroddi hinna brotlegu. Og svo stutt er til næstu kosninga, að stjórnmálamenn þora ekki að styggja stuðningsmennina.

Líklegast er, að smám saman verði lagðir kaplar um allt þéttbýli Íslands. Í fyrstu verða lagðir fárra rása kaplar, sem strax verða úreltir, því að í Bandaríkjunum eru þegar komnir í notkun hundrað rása þræðir.

Slíkir kaplar gera notendum kleift að taka við hvaða sjónvarpsefni sem hverjum sem er kann að detta í hug að senda út. Tengdir heimilistölvum gera þræðirnir notendum einnig kleift að senda upplýsingar til baka.

Smám saman hljóta þræðir að taka við af myndsnældum sem hornsteinar hins frjálsa kerfis. Menn láta sér ekki nægja niðursoðna afþreyingu af snældum og fara að fikra sig út í beinar útsendingar alls konar efnis.

Gervihnettirnir torvelda varnir einokunarinnar. Talið er líklegt, að á næsta ári komist á loft fyrsti hnötturinn, sem Íslendingar geti náð sambandi við með tiltölulega ódýrum, nokkur þúsund króna loftnetum.

Þegar framtakssamir menn eru farnir að horfa á beinar sendingar erlends sjónvarps, verður mjög erfitt fyrir ríkisútvarpið, síma og lögreglu að amast við frjálsum sendingum slíks efnis innanlands. Vígi einkaréttarins hrynja hvert af öðru.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið