Einkavinavæðing Íslandssíma

Greinar

Síminn er dýrastur, ef einokun fylgir. Því meiri skorður, sem settar eru kaupendum hans, þeim mun minna bjóða þeir í hann. Þess vegna verður ríkið að ákveða, hvort er meira virði að koma á samkeppni í símaþjónustu eða græða sem mest. Það gefur meira í aðra hönd að selja einokun en samkeppni.

Ef hagsmunir neytenda væru hafðir að leiðarljósi, mundi Íslandssíma vera skipt upp í sölunni, deildirnar seldar hver fyrir sig og hugsanlega settar skorður við, að sami aðilinn keypti allan pakkann. Ekki er þó hægt að girða fyrir slíkt, því að með kaupum og sölum getur allt runnið í eina hendi.

Því miður lykta kröfur ríkisins til kaupenda Íslandssíma ekki af því, að verið sé að verja hagsmuni notenda. Þvert á móti lykta þær af spilltum hefðum ríkisstjórnarflokkanna. Að venju er verið að haga sölunni á þann hátt, að gæludýr og vildarvinir hafi betri aðgang að einkarekinni einokun.

Hlutverkaskipting ríkisstjórnarflokkanna virðist vera sú, að Framsóknarflokkurinn hafi meiri áhuga á aðgangi sinna manna að hluta dæmisins og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi meiri áhuga á, að einokunin verði sem heillegust, þegar hún rennur í hendur þeirra, sem taldir eru vera réttir aðilar.

Verst við einkavinavæðinguna er, að tekjurnar eru ekki notaðar til að greiða skuldir, heldur til að fjármagna ýmis gæluverkefni. Eðlilegt væri, að sala innviða þjóðfélagsins væri notuð til að minnka ríkisskuldir á móti, en ekki til að fjölga gagnslitlum jarðgöngum á afskekktum stöðum.

Misnotkun einokunar Íslandssíma hefur aukizt síðan hann hætti að vera stofnun og varð að hlutafélagi í eigu hins opinbera. Nýjungar hafa verið seldar dýru verði, rekstur gemsa er allt of dýr og þjónusta á borð við tölvutenginu gemsa í útlöndum er seld á stjarnfræðilegum prísum.

Þetta er eins og rafmagnið. Eðlilegt er, að venjulegt fólk í venjulegum húsum borgi innan við 3000 krónur á mánuði fyrir samskipti og innan við 3000 krónur fyrir rafmagn. Í báðum tilvikum borgar fólk yfirleitt mun meira. Það er að borga einkavæðingu símans og niðurgreiða rafmagn til stóriðju.

Sem betur fer mun einokun símans linna, hvort sem ráðamönnum líkar betur eða verr. Tölur og netsamband munu leysa talsíma af hólmi og gera gömlu símafyrirtækin að úreltum risaeðlum, sem ekki geta keppt við nýja tækni. Nú þegar er hægt að hafa ýmsa útvegi við að komast í ódýr fjarskipti við útlönd.

En fyrst um sinn verður reynt að varðveita einokun. Flóknar reglur einkavinavæðingarnefndar um sölu Íslandssíma eru eins konar sátt milli gróðahyggju ríkisins og þarfa gæludýranna.

Jónas Kristjánsson

DV