Einkavinavæðingin

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur afhent laxveiðivinum sínum og einkavinum flokksins neyðarlínu landsins að gjöf. Einkavinavæðing þessi fór fram án nokkurs útboðs og kostar skattgreiðendur nokkra tugi milljóna króna á hverju ári. Þetta eru dæmigerð íslenzk vinnubrögð.

Ekki kemur á óvart, að dómsmálaráðherrann er sami maðurinn og sjávarútvegsráðherrann, sem einkavæddi síldar- og fiskimjölsverksmiðjur ríkisins með því að brjóta hverja einustu málsgrein í alþjóðlegum stöðlum um útboð. Þetta er auðvitað Þorsteinn Pálsson.

Tilboðin í verksmiðjurnar voru opnuð í kyrrþey og strax ákveðið að hafna því tilboði, sem hæst var og bauð staðgreiðslu. Á þeim tveimur árum, sem síðan eru liðin, hefur svo skýrt komið í ljós, hversu lágt verðið var, að til greina hefur komið að skattleggja mismuninn.

Með ósvífinni framkvæmd einkavinavæðingarinnar hefur dóms- og sjávarútvegsráðherra haft hundruð milljóna króna af skattgreiðendum, sem láta sér þetta vel líka, þegar þeir sem kjósendur taka til við að endurkjósa alla spilltustu stjórnmálamenn og -flokka landsins.

Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eiga það sameiginlegt með ráðherrum næstu ríkisstjórnar þar á undan, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, að reka landið eins og bananalýðveldi í Mið-Ameríku. Um það vitnar miðstýringaráráttan.

Ísland er það land í heiminum, þar sem mesti peningasukkari stjórnmálanna er verðlaunaður með því að gera hann að seðlabankastjóra. Þetta er líka eina vestræna ríkið, þar sem helztu bankar þjóðarinnar eru eign ríkisins og reknir af útbrunnum kjaftöskum úr pólitíkinni.

Þegar önnur ríki einkavæða ríkisrekstur, eru málin vandlega unnin og þess gætt, að sannvirði fáist fyrir söluna. Hér reyna ráðamenn hins vegar að koma í veg fyrir einkavæðingu og framkvæma hana síðan sem einkavinavæðingu, ef þeir telja sig tilneydda til athafna.

Flokkarnir sérhæfa sig sumir hverjir í einstökum tegundum spillingar. Alþýðuflokkurinn er sérfræðingur í einkavinavæðingu opinberra embætta. Sjálfstæðisflokkurinn er sérfræðingur í einkavinavæðingu í þágu stórfyrirtækjanna, sem kosta þungan rekstur flokksins.

Framsóknarflokkurinn sérhæfir sig ekki, heldur stundar allar tegundir spillingar jöfnum höndum. Hann hefur náð flokka lengst í að fjarlægjast stefnur og sjónarmið og hefur löngum verið rekinn eins og hrein valdamaskína án nokkurs málefnalegs innihalds.

Samkvæmt skoðanakönnunum láta kjósendur sér þetta allt vel líka. Núverandi stjórnarsamstarf er vinsælt, þótt það feli ekki í sér neitt málefnalegt innihald, heldur sé ekkert annað en tært hagsmunabandalag um skiptingu valds til skömmtunar á spillingu.

Dæmigert fyrir vel heppnaða ósvífni valdhafanna er að taka erlenda hugmyndafræði einkavæðingar og snúa út úr henni í formi hinnar séríslenzku einavinavæðingar og segjast vera að framkvæma það, sem sé í tízku í útlöndum um þessar mundir. Ekkert er raunar fjær sanni.

Enginn vafi er á, að dómsmálaráðherra kemst upp með að gefa laxveiðivinum sínum og einkavinum flokksins neyðarþjónustu landsins í þakklætisskyni fyrir stuðning við sig og fjárhagslegan stuðning við flokkinn. Kjósendur hafa ekki rekið upp nein stór augu vegna þessa.

Raunar er tilgangslítið að tuða um þetta. Kjósendur fá einfaldlega nákvæmlega þá valdhafa, sem þeir eiga skilið, þar á meðal dóms- og sjávarútvegsráðherra.

Jónas Kristjánsson

br>
DV