Seðlabankinn getur lítið gert annað í vaxandi verðbólgu en að hækka vextina enn einu sinni í veikri von um, að það slái á hóflitla athafnasemi þjóðarinnar. Þetta er það stjórntæki, sem bankinn hefur til umráða í einmanalegri baráttu sinni gegn verðbólgu í landinu.
Hins vegar eru takmörk fyrir þessum einleik bankans. Vextir hans eru orðnir helmingi hærri en hliðstæðir vextir á Vesturlöndum. Vextir bankans hækkuðu um 0,4% í febrúar í fyrra, um 0,5% í júlí í fyrra, um 0,6% í september í fyrra og loks um 0,8% núna í janúar.
Tölurnar sýna, að Seðlabankinn telur sig þurfa að stíga stærri skref í hvert sinn, sem hann grípur til aðgerða. Enda hefur verðbólgan vaxið ört á tímabilinu og er komin upp í um það bil 9% hraða í janúar. Á sama tíma er verðbólga um það bil 1,5% á Vesturlöndum.
Verðbólgan í fyrra stafaði einkum af þremur þáttum, bensíni, húsnæði og mat. Bensínið lýtur að mestu erlendum verðsveiflum utan valdsviðs stjórnvalda. Aukinn húsnæðiskostnaður er hins vegar bein afleiðing hóflítillar athafnasemi, sem ríkið tekur sjálft þátt í.
Matarhækkanir eru athyglisverðar. Þær sýna, að liðin er sú tíð, að samkeppni í matvöruverzlun sé helzti bandamaður ríkisvaldsins í baráttu gegn verðbólgu. Með hringamyndun hefur myndazt fáokun í matvöruverzlun, sem veldur óeðlilegum verðhækkunum á mat.
Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt málinu mikinn áhuga. Fjármálaráðherra segir meira að segja, að ofangreind talnasaga skipti ekki máli, heldur frekari framvinda talnanna á næstu mánuðum. Þessi viðhorf benda til, að ríkisstjórnin verði fremur sein til gagnaðgerða.
Saman hafa ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir á Alþingi nýlega afgreitt fjárlög fyrir þetta ár. Þá var gott tækifæri til að spyrna gegn verðbólgunni, sem allir vissu að var komin á skrið, en það var ekki gripið. Þetta tómlæti þrengir möguleika stjórnvalda til aðgerða.
Að vísu er mikið af tekjum ríkisins af sölu eigna notað til að lækka skuldir þess. Líta má á það sem eins konar viðnám. En samt ber að hafa í huga, að í öllum rekstri er eðlilegt að sölu eigna fylgi jafnmikil lækkun skulda. Að öðrum kosti er fyrirtækið að éta eignir sínar.
Ríkið hefði átt að nota allar tekjur af sölu eigna til að lækka skuldir sínar, einkum erlendar skuldir, en ekki nota eina einustu krónu af þeim tekjum í reksturinn. Með því að lækka erlendar skuldir eru peningarnir teknir úr innlendri umferð og valda ekki verðbólgu.
Ekki verður betur séð en ríkið verði nú að nýsamþykktum fjárlögum að endurskoða þessi sömu fjárlög og lækka útgjöld eða hækka tekjur. Heppilegasta leiðin til þess er að hefja uppboð á kvótum í sjávarútvegi og nota tekjurnar til að greiða niður erlendar skuldir.
Ýmis fleiri dæmi eru um, að skammtaður sé aðgangur að takmörkuðum auðlindum eða að takmörkuðum markaði. Kvótakerfi eru víðar en í sjávarútvegi og fela öll í sér tekjufæri fyrir ríkisvaldið. Uppboð kvóta fela í sér meiri sanngirni en núverandi kvótaskömmtun.
Fjármálaráðherra fer með rangt mál, er hann segir gagnrýnendur ekki hafa bent á leiðir til úrbóta. Sumar hafa verið nefndar hér og aðrar verið nefndar annars staðar. Það vekur heldur ekki traust, að hann skuli gera lítið úr 9% verðbólguhraða þessa mánaðar.
Viðskiptalönd okkar hafa um það bil 1,5% verðbólgu. Við höfum skaða af allri verðbólgu, sem er umfram það. Ríkisstjórnin þarf að taka hana fastari tökum.
Jónas Kristjánsson
DV