Miðbærinn í Reykjavík er aftur orðinn skemmtilegur eftir áratugi eymdar. Hann er fullur af útlendingum, sem ráfa um, helmingurinn með snjallsíma fyrir augum. Miðbærinn teygir sig vestur eftir Norðurströnd og austur eftir Sæbraut. Miklu betra er að fara um miðbæinn, síðan takmarkaðar voru ferðir rútubíla. Allar verzlanir eru opnar alla daga. Mér finnst erfitt að skilja, hvernig mannþröngin rýrir verzlunarveltu á Laugavegi. Lundabúðir fara mér ekki í taugar. Kaffihús og matstaðir eru á hverju horni. Þetta er eins og í útlandinu. Ísland er ekki lengur verstöð, heldur einn af seglum heimsins. Strøget í Køben er mér gleymt.