Þegar næturvörðurinn Christoph Meili var á eftirlitsferð um Union Bank í Zürich 9. þessa mánaðar, tók hann eftir tveimur tunnum barmafullum af skjölum í skjalaeyðingarherbergi bankans. Hann sá, að efstu skjölin voru um veðsetningar fasteigna í Berlín 1933-1937.
Meili gerði það, sem samvizkan bauð honum og sem hann mátti alls ekki sem starfsmaður eins stærsta bankans í Sviss. Hann tók bunka af skjölum og fór með hann til menningarstofnunar gyðinga í borginni. Hann vissi, að hann yrði rekinn, en afhenti samt skjölin.
Skýringar bankans á veru skjalanna í eyðingarherberginu voru léttvægar. Bankinn sagðist hafa ráðið sagnfræðing til að eyða gömlum skjölum, en gat ekki sagt, hver hann var. Sagnfræðingurinn dularfulli hafði enga skrá haldið yfir skjölin, sem hann hafði tortímt.
Bankinn tók þó sérstaklega fram, að eyddu skjölin hefðu ekki að neinu leyti varðað umræðuna, sem fer fram í Sviss um þessar mundir um aðild svissneskra banka að stefnu þýzkra nazista um útrýmingu gyðinga. Enginn tekur þessa fullyrðingu bankans alvarlega.
Umræðan snýst um, að svissneskir bankar tóku við verðmætum frá Þýzkalandi, sem þeir vissu, að voru illa fengin, þar á meðal gull og pappírar, sem áður höfðu verið í eigu gyðinga. Þegar þjófarnir hurfu líka í síðari heimsstyrjöldinni, sátu bankarnir uppi með verðmætin.
Svissneski bankinn Eidgenössische var einna umsvifamestur í Þýzkalandsviðskiptum á Hitlerstímanum. Þegar þriðja ríkið hrundi, varð bankinn gjaldþrota og Union Bank tók við þrotabúinu. Þess vegna er sá banki talinn búa yfir merkum sagnfræðiheimildum frá Hitlerstíma.
Stjórnvöld og bankar í Sviss hafa gert með sér samsæri um að nota svissneska bankaleynd til að gera bönkum kleift að nota illa fengin verðmæti sem sín eigin, þótt í því felist tvöfaldur stuldur af hálfu bankanna. Sæta Svisslendingar nú harðri gagnrýni vegna þessa.
Eini Svisslendingurinn, sem heldur reisn vegna þessa máls, er næturvörðurinn Meili, sem bjargaði hluta skjalanna úr eyðingarherbergi Union Bank. Hann er orðinn að tákni um mannlega reisn, en bankaherbergið er orðið táknrænn minnisvarði um eyðingarbúðir nazista.
Sviss hefur sem ríki beðið álitshnekki af augljósri græðgi, sem ræður samkomulagi ríkis og banka um að þvælast fyrir kröfum frá útlöndum um, að opinberuð verði bankaskjöl frá Hitlerstímanum, svo að komast megi að hinu sanna um aðild svissneskra banka.
Þegar svo kemur í ljós, að einn stærsti banki landsins er að láta eyða skjölum, sem varða þennan tíma, einmitt þegar lagðar hafa verið fram kröfur um birtingu þeirra, má öllum vera ljóst, að bankinn hefur óhreint mjöl í pokahorninu og að stefna ríkisins er siðlaus.
Eðlilegast væri, að samfélag vestrænna þjóða höfðaði alþjóðlegt mál gegn svissneska ríkinu og svissneskum bönkum fyrir aðild að glæpum gegn mannkyninu, svo að ljóst verði, að gróði landsins af myrkraverkunum bæti aldrei upp siðferðilegan álitshnekki þess.
Öðru máli gegnir um Svisslendinga sem þjóð. Framtak Meilis næturvarðar sýnir, að krumpað siðferði ríkis og banka hefur ekki mengað siðferði alls almennings í landinu. Raunar hafa ýmsir borgarbúar í bankaborginni Zürich tekið málstað Meilis og varið framtak hans.
Atburðarásin er raunar aðeins ný útgáfa af þekktri sögu um styrk mannlegrar reisnar í miðjum sora umhverfis, sem hefur misst fótanna í taumlausri græðgi.
Jónas Kristjánsson
DV