Einn mesti sigurinn.

Greinar

Það, sem ekki náði fram að ganga undir heitinu “raunvaxtastefna”, hefur nú sigrað undir merkinu “verðtrygging sparifjár”. Ekki er sama, hvernig hlutirnir eru orðaðir, svo sem stuðningsmenn “auðlindaskatts” fengu að kenna á, áður en þeir breyttu nafninu í “sölu veiðileyfa”.

Tilfinningalega voru margir andvígir raunvöxtum, af því að þeir vissu, að þetta var eins konar nýyrði um háa vexti, sem þeir treystu hvorki sjálfum sér né öðrum til að greiða. Enginn getur hins vegar haft á móti því, að sparifé sé verðtryggt!

Ekki eru þetta þó eingöngu orðaleikir og sjónhverfingar. Að baki orðsins raunvaxta lá sú hugmynd, að vextir yrðu svo háir, að lántakendur greiddu smám saman til baka sem svaraði upprunalegu verðgildi höfuðstólsins.

Verðtryggingarstefnan skilur aftur á móti milli vaxta annars vegar og verðbóta á höfuðstól hins vegar. Þannig var hægt að koma vöxtum að nafninu til niður í næstum ekki neitt, til dæmis 1%, og tryggja þó hag sparifjáreigenda.

Enginn vafi er á, að í þessu formi hefur verðtryggingin sigrað í hugum almennings. Í þessu formi viðurkenna menn þá samlíkingu Gunnars J. Friðrikssonar, að aldrei hafi þótt heiðarlegt að fá að láni pund af smjöri og skila aftur hálfu.

Svo er nú komið, að eigendur sparifjár geta verðtryggt fé sitt algerlega, ef þeir setja það á sex mánaða reikninga í bönkunum. Jafnframt eru bankarnir byrjaðir að lána þetta fé út á verðtryggðan hátt.

Lífeyrissjóðirnir hafa flestir annað hvort tekið upp verðtryggingu eða eru í þann veginn að gera það. Sama stefna hefur verið tekin upp hjá Húsnæðismálastofnun.

Einmitt á þessu sviði þurfa verðtryggingamenn að gæta sín bezt,svo að ekki slái í baksegl. Húsbyggjendur þurfa nefnilega bæði hærri og lengri lán til að mæta verðtryggingunni. Annars hætta Íslendingar að geta byggt þak yfir höfuð sér.

Lofað hefur verið endurbótum á þessu sviði. Þær eru hins vegar erfiðar í framkvæmd, því að lánastofnanir eru að eðlisfari tregar til að binda fé í lengri tíma en venja hefur verið. Þennan múr þarf nauðsynlega að rjúfa.

Einnig hefur verið lofað, að fullri verðtryggingu verði náð í lok þessa árs. Það þýðir, að ýmsir sjóðir og stofnanir, þar sem stjórnmálamenn sitja og skammta gjafafé til vildarvina og forréttindahópa, verða að breyta um vinnubrögð.

Hin fyrri aðferð, að úthluta gjafafé undir heiti lána, leiddi auðvitað til misnotkunar og var hornsteinn hinnar sérstæðu, pólitísku spillingar á Íslandi. Þar á ofan leiddi hún til rangrar fjárfestingar og rýrðs þjóðarhags.

Með verðtryggingunni hefur því verið lagður grundvöllur að betra og heiðarlegra þjóðfélagi, að virkara og auðugra þjóðfélagi. Með verðtryggingunni eru meiri líkur en áður á, að sparifé leiti til verkefna, sem eru nógu arðbær til að skila til baka raunverulegu andvirði lána.

Stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar virðast sammála um, að fullri verðtryggingu fjárskuldbindinga skuli náð á þessu ári. Þessi samstaða er einn merkasti stjórnmálasigur, sem þjóðin hefur unnið.

Nú eru aðeins lokaskrefin eftir. Framkvæmdin er að verulegu leyti í höndum ríkisstjórnarinnar, sem ekki má hika og tvístíga. Almenningur styður nefnilega fulla verðtryggingu, – ekki bara verðtryggingu á þeim lánum, sem almenningur sætir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið