Einn prentaður fjölmiðill.

Greinar

Enginn fjölmiðill komst með tærnar, þar sem Dagblaðið & Vísir hafði hælana í upplýsingaþjónustu fyrir byggðakosningarnar nýafstöðnu. Þetta blað eitt hafði blaðamenn á þönum um landið þvert og endilangt til að ná öllum sjónarmiðum.

Árangurinn varð sá, að Dagblaðið & Vísir gat birt viðtöl við fulltrúa allra flokka og lista í öllum þeim 53 kjördæmum, þar sem framboð komu fram, og auk þess birt viðtöl við óbreytta kjósendur á öllum þessum stöðum.

Auk þessa hlaut Reykjavík sérstaka umfjöllun í kjallaragreinum, sem frambjóðendur allra flokka höfðu jafnan aðgang að og notfærðu sér í ríkum mæli. Þannig komust á framfæri í Dagblaðinu & Vísi einum fjölmiðla öll sjónarmið um land allt.

Í þessum viðtölum kom greinilega fram, að engar tvær byggðir eru eins. Hver byggð hefði sín sérstöku verkefni og vandamál og sínar sérstöku hugmyndir að lausnum af hálfu frambjóðenda. Allt þetta litróf birtist í Dagblaðinu & Vísi einu.

Þetta varð að gerast, af því að Dagblaðið & Vísir tekur alvarlega hlutverk sitt sem fjölmiðils. Þáttur þess hlutverks er að segja lesendum fréttir af sjónarmiðum í þjóðlífinu, alveg eins og að segja fréttir af öðrum þáttum þjóðlífsins.

Ríkisfjölmiðlarnir, útvarp og sjónvarp, tóku ekki að sér svona víðtækt hlutverk í aðdraganda kosninganna. Þeir létu sér nægja eins og jafnan áður að reyna að gæta óhlutdrægni milli flokka. Þeir sinntu kosningunum raunar lítið.

Morgunblaðið, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið komu ekki fram sem fjölmiðlar síðustu vikurnar fyrir kosningar, heldur sem einhliða baráttutæki einstakra framboðslista í Reykjavík, líkt og kosningablöðin úti á landi.

Móðurinn var til dæmis svo mikill á Morgunblaðinu, að hann rann ekki af því eftir kosningar. Einstefnan var þá enn svo mögnuð, að blaðið lét fulltrúa síns flokks um land allt, en enga aðra, túlka kosningaúrslit hvers staðar.

Hvergi þekkist í hinum vestræna heimi, að þau dagblöð, sem eru í hópi hinna útbreiddustu í landinu, kasti fyrir borð fjölmiðlahlutverki sínu og gerist einhliða baráttutæki fyrir hinn stóra sannleik eins framboðslista.

Óhugsandi væri, að hægri sinnuð stórblöð á borð við Berlingske Tidende í Danmörku og Aftenposten í Noregi gerðust baráttutæki á borð við Morgunblaðið. Hins vegar mundu þau telja sig sæmd af upplýsingaþjónustunni, sem Dagblaðið & Vísir veitti.

Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið eru lítil blöð, sem henta sínum sértrúaflokkum. Fólk lítur ekki á þau sem upplýsingamiðla, eiginlega fjölmiðla, heldur sem áróðurstæki stjórnmálaflokka. Þar er hlutverkið ekki misskilið.

Morgunblaðið er hins vegar stórt blað, sem reynir að vera fjölmiðill og áróðurstæki í senn. Stundum er fjölmiðillinn yfirsterkari og stundum áróðurstækið. Slíkur tvískinnungur getur ekki gengið endalaust hér, frekar en annars staðar.

Sú er líka skýringin á vexti og viðgangi Dagblaðsins & Vísis á hálfs árs sameinaðri ævi, að þjóðin hefur áttað sig á, að blaðið vill skilyrðislaust vera fjölmiðill, en ekki eitthvað annað og allra sízt áróðurstæki.

Eðlilegt er, að hver flokkur vilji hafa sitt áróðurstæki, samtals fjögur smáblöð. Þar fyrir utan þarf svo þjóðin einn prentaðan fjölmiðil að minnsta kosti, fjölmiðil, sem segir ekki pass í kosningum eins og ríkisfjölmiðlarnir, heldur veitir alhliða upplýsingar.

Jónas Kristjánsson

DV