Ef ráðherra fær utan úr bæ tilmæli eða sníkjur, sem eiga ekki erindi til ráðuneytisins, heldur til Byggðastofnunar, og hann framsendir þetta með fylgbréfi til stofnunarinnar, virðist forstjóri hennar hingað til hafa talið, að um eins konar útgjaldafyrirmæli að ofan sé að ræða.
Yfirlýsingar forstjóra Byggðastofnunar gefa örlitla innsýn í hugarheiminn, sem hefur komið lánveitingum fyrirgreiðslusjóða upp í 45 milljarða. Þar ber enginn neina ábyrgð. Menn sitja bara í fínum jakkafötum á fínum kontórum og grýta peningum út um víðan völl.
Að baki bréfa og símtala milli stjórnmálamanna og skömmtunarstjóra liggur fyrirgreiðsluæði, er helgast af þokukenndri lögbók, sem kölluð er “atvinnustefna”, þegar önnur rök þrjóta. Lögbókin gerir ekki ráð fyrir neinni ábyrgð skömmtunarstjóra í opinberum sjóðum.
Í fínimannsleik stjórnmálamanna og skömmtunarstjóra stafar hið óhefta peningaaustur meðal annars af því, að stjórnmálamennirnir og skömmtunarstjórarnir eru einnota. Þeir lifa í núinu og virðast ekki gera sér neina grein fyrir, að sagan muni vega þá og meta.
Stjórnmálamenn og skömmtunarstjórar fara ekki eftir spakmæli Hávamála um orðstírinn, sem aldrei deyr. Þeir eru í fínimannsleik líðandi stundar og fá andlega fullnægingu af að útvega peninga til þeirra, sem ganga með betlistaf milli banka og sjóða hins opinbera.
Skömmtunarstjórarnir vísa frá sér allri ábyrgð og kasta henni ýmist til útgjaldafíkinna ráðherra eða til hugtaksins “atvinnustefnu”. Í stétt skömmtunarstjóra vantar greinilega heilsteypt fólk með ríka sjálfsvirðingu og skilning á mikilvægi orðstírs, sem aldrei deyr.
Stjórnmálamennirnir vísa einnig allri ábyrgð frá sér, ýmist til skömmtunarstjóranna eða til “atvinnustefnunnar”. Þannig hefur orðið til 45 milljarða króna vítahringur, sem á eftir að valda afkomendum okkar miklum endurgreiðslum og erfiðleikum á næstu áratugum.
Forsætisráðherra er réttilega sakaður um að hafa stundað fyrirgreiðslustefnu sem borgarstjóri. Samkvæmt spakmælinu um, að batnandi manni sé bezt að lifa, hefur hann samt lagt til atlögu við vítahring sjóðakerfisins. Hann er fluttur úr gamla glerhúsinu.
Reglan um, að ekki megi kasta steinum úr glerhúsi, nær ekki yfir þá, sem hafa skipt um vettvang og ákveðið að byrja nýtt og betra líf. Þess vegna skyggir fortíðin ekki á tilraunir forsætisráðherra til að koma böndum á fyrirgreiðslukerfi opinberra skömmtunarstjóra.
Ekkert bannar fínimönnum skömmtunarkerfisins að segja af sér og byrja nýtt líf sem ábyrgir borgarar. Þeir gætu til dæmis sótt aftur um stöður skömmtunarstjóra með loforðum um, að “gera þetta aldrei aftur” og taka í þess stað upp vinnubrögð sem standast dóm sögunnar.
Þótt stjórn Framkvæmdasjóðs hafi tekið þátt í að firra sig ábyrgð með tilvísun til “atvinnustefnu” stjórnmálamanna, hefur hún eigi að síður sýnt þann manndóm að stöðva lánveitingar sínar, að lýsa yfir óbeinu gjaldþroti sjóðsins og að undirbúa formlegt andlát hans.
Viðbrögð yfirmanna Byggðasjóðs eru önnur og neikvæðari, enda hafa forstjóri og stjórnarformaður sjóðsins verið í fylkingarbrjósti “atvinnustefnunnar”, sem vísað er til, þegar varin er lánastefna, sem á sér enga stoð í hefðbundinni rekstrarhagfræði eða þjóðhagfræði.
Þeir verða ekki dregnir fyrir lög og dóm, en þeir verða dregnir fyrir sagnfræðilegt og siðferðilegt mat, þar sem hinir einnota og ábyrgðarlausu fá engan orðstír.
Jónas Kristjánsson
DV