Jólagjöf utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar var fjögurra ára framlenging á einkarétti Flugleiða til afgreiðslu á vöruflugi á Keflavíkurflugvelli. Að sögn talsmanns Flugleiða er framlengingin á svipuðum nótum og fyrri einokunarsamningur.
Flugleiðir hafa notað þessa einokun til að reka brott þau flugfélög, sem hafa reynt að koma á fót ódýru vöruflugi milli Íslands og fjarlægra landa. Þannig hafa Flugleiðir á síðustu árum losnað við Flying Tigers, Pan American og Federal Express af Keflavíkurflugvelli.
Lág farmgjöld í flugi eru helzta forsenda þess, að við getum komið dýrustu sjávarafurðum okkar á beztu markaði í fjarlægum löndum. Án þeirra getum við ekki nýtt Japansmarkað að neinu gagni, þann markað, sem að öðru leyti virðist hafa mesta þróunarmöguleika.
Lág farmgjöld í flugi eru líka helzta forsenda þess, að við getum komið upp fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Engum erlendum forstjóra mun detta í hug að ræða við Íslendinga um notkun slíks svæðis nema tryggt sé frjálst samkeppnisverð í vöruafgreiðslu.
Það er náttúrulögmál í viðskiptum, að lág gjöld þrífast ekki við einokun. Sú staðreynd hefur lengi verið kunn á Vesturlöndum og upp á síðkastið einnig í Austur-Evrópu. Þess vegna er alls staðar beitt samkeppni til að útvega lægsta verð, sem fáanlegt er hverju sinni.
Aðeins hér á landi láta embættismenn og stjórnmálamenn sér detta í hug að hægt sé á einhvern annan hátt að finna lágt verð. Hér á landi telja valdamenn enn frambærilegt, að unnt sé að láta verðútreikninga og meinta sanngirni koma í stað verðmyndunar í samkeppni.
Ekki hefur enn verið í alvöru reynt að koma á fót einokun Eimskipafélags Íslands á vöruafgreiðslu í Reykjavíkurhöfn. Önnur skipafélög mega afgreiða sig sjálf og óháðir aðilar geta boðið vöruafgreiðslu hverjum sem er. Þannig ætti þetta að vera á Keflavíkurvelli.
Í hinum nýja einokunarsamningi er ákvæði um endurskoðun, ef komið verði á fót fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Þar kann að vera undankomuleið fyrir síðari ríkisstjórn, sem hugsanlega verður ekki eins fjandsamleg frjálshyggju í atvinnulífinu og þessi.
Að vísu þyrfti slík ríkisstjórn að sannfæra erlenda aðila, sem hugsanlega vildu taka þátt í fríiðnarsvæði, um, að hún muni falla frá ástarsambandinu, sem einkennt hefur samlíf Flugleiða og hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri. Og það verður afar erfitt.
Af biturri reynslu allra erlendra aðila, sem hafa reynt að koma upp ódýru vöruflugi til Íslands og frá því, munu aðrir draga þá ályktun, að íslenzkum stjórnvöldum sé ekki treystandi til að leyfa markaðslögmálum að njóta sín í vöruafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli.
Í hinum nýja einokunarsamningi er ekkert ákvæði um endurskoðun, ef íslenzkur sjávarútvegur uppgötvar, að einokunin kemur í veg fyrir eðlilega þróun í tækni Íslendinga við að koma sjávarafurðum í sem hæst verð á erlendum markaði. Menn verða að bíða í fjögur ár.
Einokunarsamningurinn sýnir, að valdakerfið tekur hagsmuni Flugleiða fram yfir hagsmuni almennings og atvinnuvega. Það kemur líka fram í einokun á flugleiðum innanlands og utan, í takmörkunum á leiguflugi, svo og í undanþágum frá greiðslu ýmissa gjalda.
Með nýja einokunarsamningnum hefur utanríkisráðherra og ríkisstjórnin lýst frati á strauma frjálsræðis, sem einkenna atvinnulíf umheimsins í auknum mæli.
Jónas Kristjánsson
DV