Einokunarhneigðin játuð.

Greinar

,Jafnframt yrði undirboðum hætt,” skrifaði ritstjóri búnaðarblaðsins Freys nýlega í lofgrein um eggjadreifingarstöð, sem reisa á fyrir fóðurbætisgjald, er neytendur hafa greitt í búvöruverði. Í tilvitnuninni felst játning á raunverulegu markmiði stöðvarinnar.

“Þá láðist eggjaframleiðendum gjörsamlega að koma skipulagi á þessa framleiðslugrein,” segir í sömu grein búnaðarblaðsins. Af hvoru tveggja má ljóst vera, að ætlunin er að koma eggjum í svipað kerfi og er í framleiðslu og dreifingu kindakjöts og mjólkurafurða.

Valdakerfi landbúnaðarins hefur mátt þola, að duglegir eggjaframleiðendur, sumir meira að segja af mölinni, hafa risið upp í landinu og komið á fót stórum búum, sem hafa síðan lækkað eggjaverðið. Þetta er fleinn í holdi hins hefðbundna landbúnaðar.

Neytendur hafa hins vegar fagnað því, að egg eru ekki eins dýr og þau voru áður, þegar kerfi hins hefðbundna landbúnaðar stjórnaði verði þeirra að mestu leyti. Samtök neytenda hafa líka mótmælt harðlega áformum einokunarsinna um eggjadreifingarstöð.

Neytendur og skattgreiðendur bera byrðarnar af “skipulagi” því, sem nú er á afurðum kinda og kúa. Skattgreiðendur borga með þessu kerfi um hálfan annan milljarð króna á þessu ári og neytendur minnst hálfan milljarð til viðbótar í verði umfram heimsmarkaðsverð.

Bændur hafa að vísu ekki orðið mjög feitir af þessu skipulagi. Hins vegar hafa risið upp hrikalegar vinnslu- og dreifingarstöðvar, sem að öllu leyti eru reiknaðar inn í verðið, sem neytendur og skattgreiðendur eru neyddir til að greiða fyrir afurðirnar.

Eitt gjaldið, sem neytendur borga í hinu útreiknaða verði, er fóðurbætisgjald, sem leggst þyngst á framleiðslu svína og alifugla. Gjaldið hefur síðan verið notað að geðþótta miðstjórnarmanna kerfisins og að engu leyti runnið til þeirra, sem hafa lækkað verð á svínakjöti og eggjum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur fyrir sitt leyti ákveðið að verja 5,3 milljónum króna af gjaldi þessu til að reisa eggjadreifingarstöð. Með henni á að refsa þeim, sem hafa lækkað og haldið niðri verði á eggjum og hygla hinum, sem ekki hafa áhuga á framleiðni.

Þvinga á ódýru framleiðendurna inn í þessa stöð. Síðan hefst sama skipulagning og í hinni hefðbundnu búvöru. Komið verður upp jöfnun flutningskostnaðar og annarri jöfnun, sem tryggir að markaðslögmálunum verði endanlega kippt úr sambandi, neytendum til stórtjóns.

Framleiðsluráð landhúnaðarins hefur vald til að gefa leyfi fyrir slíkum stöðvum. Ljóst er, að ráðið hefur ekki áhuga á að veita fleiri leyfi en þetta eina. Það þeytir upp moldviðri með lítt markvissu tali um nauðsyn á heilbrigðisaðhaldi í eggjaframleiðslu.

Auðvitað er heilbrigðiseftirlit allt annað mál en eggjadreifingarstöð. Auk þess vita neytendur, að þeir hafa stundum fengið fúla mjólk og skemmt kjöt frá hinum skipulagða landbúnaði, en að öllum jafnaði góð egg frá hinum óskipulagða hluta.

Ríkisstjórnin hefur ekki fallizt á að hleypa einokunarliðinu á fulla ferð í máli þessu, en þó heimilað, með ýmsum skilyrðum, tveggja milljón króna lán til stöðvarinnar. En mál þetta minnir á, að neytendur og skattgreiðendur þurfa að taka saman höndunum um að velta búvörukerfinu af herðum sér.

Jónas Kristjánsson.

DV