Eins dauði er annars brauð

Greinar

Vestmannaeyingar hafa verið manna fljótastir að tileinka sér sölu á ferskum fiski í gámum. Um leið hafa þeir verið einna fyrstir að reka sig á skuggahliðar þessa gróðavegar, að fiskvinnsla og fiskvinnslufólk tapa á meðan sjómenn og útgerð hagnast.

Í þessari viku hyggst bæjarstjórn Vestmannaeyja halda fund með hagsmunaaðilum til að ræða þennan vanda. Slík umræða getur auðveldað fólki að átta sig á eðli málsins. Hins vegar er ólíklegt, að fáist niðurstaða, sem allir geti sætt sig við.

Hætt er við, að skuggahliðar gámaútflutningsins leiði til vanhugsaðra gagnaðgerða. Sem dæmi um það má nefna, að sjávarútvegsráðherra sagði í umræðu um málið á Alþingi, að til greina kæmi að leita umsagna sveitarstjórna um leyfi til útflutnings á gámafiski.

Þetta mundi í raun leiða til, að hvatvísar sveitarstjórnir höfnuðu gámafiski til að vernda fiskvinnslu og atvinnu heima fyrir. Þær mundu á þann hátt hrekja útgerð í grænni haga og flýta fyrir röskuninni, sem virðist ætla að sigla í kjölfar útflutnings á gámafiski.

Ástandið í Vestmannaeyjum boðar mikla röskun í sjávarplássum landsins. Þar hafa að undanförnu fjórir fimmtu hlutar aflans farið í gáma. Nær allur afli trollbáta fer í gáma og vaxandi hluti netafiskjar. Vinnslan fær í sinn hlut einkum togarafiskinn, en þó ekki allan.

Þetta hefur valdið því, að tæpast er unnt að halda uppi fullri dagvinnu í stóru frystihúsunum fjórum. Vinnslumagn fyrstu mánaða þessa árs hæfir aðeins þremur húsum og verður hugsanlega hæfilegt fyrir að eins tvö hús síðar á þessu ári, ef svo heldur fram.

Við stöndum þannig andspænis sögulegri þróun, sem er í þann mund að greiða frystiiðnaðinum alvarlegt högg, svo og fólkinu, sem þar starfar. Vinnan í frystihúsunum hefur að vísu verið illa borguð, en þó stuðlað að tiltölulega góðum heimilistekjum í plássunum.

Víða kemur þetta fram í, að eiginmaðurinn fær stórauknar tekjur á sjónum, meðan eiginkonan missir vinnuna í landi. Þessi tilfærsla losar um búsetu, því að skip geta landað hvar sem er, en frystihúsin eru staðbundin fjárfesting. Þetta mun færa til byggð í landinu.

Röskun þessi verður óþægileg eins og öll röskun, en getur þó leitt til góðs, eins og fyrri straumar fólks í landinu, það sem af er öldinni. Láglaunastörfum í frystihúsum fækkar og arðbærari störf taka við, annaðhvort heima fyrir eða í framsæknari sveitarfélögum.

Lítið gagn verður í ráðagerðum um stöðvun þessarar röskunar. Útflutningur á ferskum fiski, einkum í gámum, hefur ekki aðeins bjargað útgerðinni í landinu. Hún hefur sparað þjóðfélaginu gengislækkanir og hartnær stöðvað verðbólguna. Gámafiskurinn mun blífa.

Fiskveiðarnar eru skyndilega aftur orðnar að hornsteini þjóðfélagsins, hinn mikli gróðavegur, sem allt annað í þjóðfélaginu styðst við. Þeir hagsmunir eru svo yfirþyrmandi, að aðrir hagsmunir munu verða að víkja, þegar skerst í odda, í Eyjum eða annars staðar.

Þjóðin er að hagnast á fundi stórra og stækkandi markaða, þar sem ferskur fiskur er dýrari en frystur. Hún er að hagnast á bættri samgöngutækni, sem skilar ferska fiskinum í verðmætu ástandi til neytenda. Við munum ekki neita okkur um að fullnýta þetta happ.

En dæmið frá Vestmannaeyjum sýnir, að skynsamlegt er að fara strax að gera sér grein fyrir skuggahliðum hinnar nýju velgengni og horfast í augu við þær.

Jónas Kristjánsson

DV