Meðferð stríðsfanga Bandaríkjanna á Kúbu er orðin frambærileg samkvæmt upplýsingum Rauða krossins. Furðuleg myndskeið, sem ollu gagnrýni í Evrópu, voru framleidd af bandaríska hernum fyrir bandaríska fjölmiðlaneytendur, sem hrópuðu á hefnd fyrir hryðjuverk.
Annars vegar höfum við kröfuna um, að Bandaríkin fari eftir alþjóðasáttmálum, sem þau hafa undirritað, og hins vegar kröfu bandarískra kjósenda um, að herinn hefni sín á óbreyttum hermönnum fyrir hryðjuverk, sem týndir forustumenn þeirra létu fremja í Bandaríkjunum.
Alþjóðasáttmálar um meðferð stríðsfanga eru gamlir og hafa lifað af tvær heimsstyrjaldir. Bandaríkjamenn eru á þessu sviði sem ýmsum öðrum komnir út á hálan ís. Viðhorf þeirra til umheimsins eru ekki til þess fallin að skapa frið um Bandaríkin í náinni og fjarlægri framtíð.
Bandaríkin eru hætt að undirrita alþjóðlega sáttmála og eru þar ýmist ein á báti eða í miður skemmtilegum félagsskap örfárra ríkja á borð við Jemen og Súdan. Þar á ofan neitar þingið að staðfesta um 60 fjölþjóðasáttmála, sem fulltrúar Bandaríkjanna höfðu áður undirritað.
Bandaríkin eru eina landið í heiminum, sem ekki er aðili að Kyoto-bókuninni um útblástur mengunar. Þau neita að undirrita bann við framleiðslu og sölu jarðsprengja, sem í þriðja heiminum hafa valdið takmarkalitlum þjáningum barna, er kunna fótum sínum ekki forráð.
Bandaríkin neita að skrifa undir hert eftirlit með framleiðslu efnavopna, af því að þau vilja ekki þrengja svigrúm sitt á því sviði, eins og þau vilja ekki þrengja svigrúm sitt til að framleiða, selja og nota jarðsprengjur. Þau vilja yfirleitt alls ekki skerða fullveldi sitt á neinn hátt.
Bandaríkin stunda viðskiptaþvinganir gegn nærri helmingi ríkja heimsins. Sem betur fer er sameinuð Evrópa svo sterk, að Bandaríkin geta ekki náð fram vilja sínum þar. En fátækar þjóðir þriðja heimsins verða að sæta viðskiptalegu ofbeldi Bandaríkjanna, til dæmis í þágu Enron.
Eitt alvarlegasta ágreiningsefni Evrópu og Bandaríkjanna er alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn, sem stofnaður hefur verið í Haag að frumkvæði Evrópu. Bandaríkin heimtuðu, að þar mætti ekki dæma Bandaríkjamenn og neituðu að vera með, þegar sú krafa náðist ekki fram.
Svo langt gengur tilfinning Bandaríkjamanna fyrir sérstöðu sinni, að þingið hefur samþykkt lög, sem skylda forseta landsins til að fara í stríð við lönd, sem draga bandaríska borgara fyrir stríðsglæpadómstól. Þessi undarlegu lög eru í gamni kölluð: Lögin um árásina á Haag.
Bandaríkin eru skuldseigasta ríki Sameinuðu þjóðanna. Fátæku löndin borga sitt með skilum, en Bandaríkin aðeins hluta af sínu og þá með eftirgangsmunum og skilyrðum. Enda hafa Bandaríkin í kjölfarið tapað sæti í mannréttindanefnd og fíkniefnanefnd samtakanna.
Bandaríkjamenn eiga það sameiginlegt með Ísraelsmönnum að telja sig guðs útvalda þjóð, sem sé handhafi réttlætis og sannleika og þurfi ekki að takmarka svigrúm sitt að hætti annarra þjóða. Þeir líta á sig sem einstaka þjóð í heiminum og haga sér í samræmi við það.
Ríka Evrópa er eini heimshlutinn, sem ekki lætur hina guðs útvöldu þjóð valta yfir sig. Annars staðar í heiminum láta menn sér nægja að óttast, sleikja og hata einstaka Ameríku.
Jónas Kristjánsson
FB