Eitrað kerfi aukið.

Greinar

Til skamms tíma voru skipulagssinnar ekki komnir með klærnar í eggjaframleiðslu. Þar hefur ríkt opinn markaður á ferskri vöru, enda eru ekki dæmi þess á undanförnum árum, að kvartað hafi verið um, að egg væru ekki nógu góð.

Verðið hefur breytzt eftir markaðsaðstæðum hverju sinni. Oftast hefur verið hægt að kaupa egg langt undir viðmiðunarverði skipulagssinna í Framleiðsluráði landbúnaðarins. Og aldrei hafa þau verið dýrari á frjálsum markaði.

Skipulagsleysið hefur leitt til þess, að vaxið hafa úr grasi nokkur stór fyrirtæki í eggjaframleiðslu. Þau hafa náð aukinni hagkvæmni í vinnslu og skilað henni til neytenda með því að halda niðri markaðsverði á eggjum.

Þetta er gerólíkt þrautskipulagðri landbúnaðarafurð á borð við mjólk. Óhófleg notkun fúkalyfja, tvíhitun mjólkur, gerlamyndun og langar helgar hafa hvað eftir annað leitt til kvartana, sem hafa reynzt á rökum reistar.

Verðið hefur ekki breytzt eftir markaðsaðstæðum. Miðað við verðbólgu er það eins sumar og vetur, hvort sem mjólkin er drukkin eða fer að mestu leyti í osta, sem gefnir eru til útlanda á verði flutningskostnaðar.

Þrautskipulagið hefur leitt til þess, að við Lómagnúp er framleidd mjólk til notkunar í Reykjavík, meðan framleitt er í Mosfellssveit dilkakjöt handa Kirkjubæjarklaustri. Samt eru skipulagssinnar afar ánægðir með sig.

Þeir hafa nú tekið að sér hlutverk viðskiptaráðuneytis. Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur ákveðið að veita með ákveðnum skilyrðum leyfi til heildsölu á eggjum. Þar er kominn vísir að einkasölu á einu sviði enn.

Fyrsti leyfishafinn er Samband eggjaframleiðenda. Þar ráða ferðinni óhagkvæmir smáframleiðendur, sem eru vanir því á öðrum sviðum landbúnaðar að fá að vera í friði með himinhá verð, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur.

Stóru framleiðendurnir, sem sagðir eru undirbjóða markaðinn, þótt þeir séu bara að skila hagkvæmni í rekstri til neytenda, hafa ekki enn fengið heildsöluleyfi hins nýja viðskiptaráðuneytis í Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Fastlega má búast við, að hin nýja skipulagning verði notuð til að þvinga markaðsverð eggja upp í viðmiðunarverð Framleiðsluráðs landbúnaðarins og til að skattleggja hina hagkvæmu framleiðendur í þágu hinna óhagkvæmu.

Ríkisstjórnin er auðvitað úti að aka, meðan þessu ofbeldi fer fram. Landbúnaðarráðherra er sjálfsagt í hjarta sínu hlynntur því, að sem mest af landbúnaði færist undir skipulag styrkja, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta.

Muninn á markaði og skipulagi sjáum við í muninum á framboði ávaxta og grænmetis. Alltaf er til nóg úrval af margvíslegum ferskum ávöxtum, meðan ferskt grænmeti er fábreytt og oft lélegt. Það er nefnilega einkasala á grænmeti, en ekki ávöxtum.

Á tímum vaxandi skilnings á lögmálum efnahagslífsins væri eðlilegt, að stjórnmálamenn og embættismenn reyndu að brjóta niður einokun, leyfakerfi, millifærslur, hringamyndun, styrki, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur.

Í þess stað virðast skipulagssinnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins ætla að komast upp með að breiða eitrað kerfi sitt yfir fleiri þætti íslenzkrar framleiðslu og stuðla þannig að því, að þjóðin stígi skref til baka í átt til eymdar og örbirgðar.

Jónas Kristjánsson

DV