Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að fréttir fjölmiðla af framferði stjórnvalda og hers í El Salvador hafa verið réttar og að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur beitt kerfisbundnum lygum til að hylma yfir geðsjúkum morðingjum.
Á níunda áratugnum létu stjórnvöld í El Salvador myrða 75.000 manns og hrekja eina milljón manna á vergang. Síðari talan samsvarar því, að 50.000 Íslendingar væru hraktir frá heimilum sínum. Harðast gekk fram í þessu Roberto d’Aubuisson, leiðtogi stjórnarflokksins.
Til verstu illverkanna var notuð sérstök morðsveit, sem þjálfuð var í Bandaríkjunum á vegum bandaríska hersins. Hún nauðgaði meðal annars bandarískum nunnum og myrti þær. Hún myrti bandaríska jesúítapresta og sjálfan erkibiskup landsins, Oscar Arnulfo Romero.
Um allt þetta var fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma. Stjórnir Reagans og Bush Bandaríkjaforseta kölluðu þetta fjölmiðlafár. Það gerði líka Wall Street Journal í sérstökum viðhafnarleiðara, þar sem ráðizt var á blaðamenn fyrir vilhallan fréttaflutning frá El Salvador.
Margt yfirstéttarfólk trúði á Wall Street Journal, af því að það er fremur leiðinlegt blað, skrifað af hagfræðingum, en ekki blaðamönnum. Klisjan um fjölmiðlafárið á greiðan aðgang að fólki, sem hefur komið sér vel fyrir í lífinu og vill ekki láta trufla samvizku sína.
Af ráðherrum og embættismönnum forsetanna Reagans og Bush gengu harðast fram Alexander Haig, Jeane Kirkpatrick og Thomas O. Enders. Embættisfærsla þessa fólks verður nú rannsökuð í Bandaríkjunum í framhaldi af niðurstöðu Salvadornefndar Sameinuðu þjóðanna.
Nefndin fór rækilega ofan í saumana á fárinu í El Salvador. Hún kannaði 25.000 tilvik og yfirheyrði 2.000 vitni. Niðurstaða hennar var sú, að þetta hefði ekki verið neitt fjölmiðlafár, heldur blákaldur sannleikurinn. Morðæði réði ferðinni hjá stjórn og her El Salvadors.
Ronald Reagan og George Bush, Alexander Haig og Jeane Kirkpatrick var fullkunnugt um þetta ástand. Þeim var líka ljóst, að brjálæðið var kostað af bandarískum stjórnvöldum. Þeim mátti öllum vera ljóst, að svik þeirra mundu komast upp um síðir. Samt lugu þau í sífellu.
Sóðaleg framkoma Wall Street Journal, bandarískra forseta og embættismanna úr flokki repúblikana í máli El Salvadors sýnir ljóslega, að lýðræðislegt stjórnkerfi kemur ekki í veg fyrir, að á Vesturlöndum komist til valda meira eða minna forhertir siðleysingjar.
Stjórnin í El Salvador er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Þar er við völd Alfredo Christiani forseti úr flokki geðsjúklingsins d’Aubuissons. Í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna lét Christiani þing landsins náða í skyndingu alla glæpamenn hersins með einu pennastriki.
Allt fram á síðustu daga hefur Christiani forseti notið aðstoðar varnarmálaráðherra, sem áður var yfirmaður morðsveitarinnar. Það er René Emilio Ponce, sem til skamms tíma var helzti skjólstæðingur bandarískra stjórnvalda og bandaríska hersins í El Salvador.
Sem betur fer eru hinir eitruðu vindar hættir að blása um utanríkisráðuneyti og forsetahöll Bandaríkjanna. Bill Clinton er að því leyti líkur Jimmy Carter, að hann mun ekki láta viðgangast glæpi bandarískra stjórnvalda gegn mannkyninu að hætti þeirra Reagans og Bush.
Mál þetta er enn eitt sönnunargagn þess, að margtuggna klisjan um fjölmiðlafár felur jafnan í sér tilraun valdamanna til að breiða yfir mistök sín og glæpi.
Jónas Kristjánsson
DV