Eitt gerum við vel.

Greinar

Þótt margt fari miður í efnahagslífi okkar, er ástandið engan veginn alvont. Sumt fer betur hér en annars staðar. Til dæmis hefur í stórum dráttum verið full atvinna á Íslandi í tvo áratugi vinstri og hægri stjórna.

Sumpart hefur að vísu dulið atvinnuleysi staðið að baki fullrar atvinnu. Hinn hefðbundni landbúnaður er raunar ekki annað en dulið atvinnuleysi. Og sífelld útþensla hins opinbera er einnig eins konar dulið atvinnuleysi.

Til viðbótar hafa svo nokkur þúsund manns flutzt úr landi í grænni haga meira kaups og styttri vinnutíma. Þessi landflótti hefur komið í veg fyrir atvinnuleysi hér heima fyrir, þótt hann sé að öðru leyti blóðtaka.

Þessir fyrirvarar breyta því ekki, að nokkurn veginn allir Íslendingar hafa vinnu og að lausar stöður eru margfalt fleiri en hinir fáu atvinnulausu. Og þeir, sem hafa vinnu, hugsa öðruvísi en hinir, sem enga hafa.

Skólafólk fær á sumrin vinnu við ræktun og fegrun. Eldri hópar þess fá vinnu í fiski eða hjá verktökum. Allir venjast því á unga aldri, að atvinna sé eðlilegur og sjálfsagður þáttur í lífi þeirra.

Eftir nám fá allir fljótlega vinnu, margir meira að að segja við sitt hæfi. Allir verða þátttakendur í þjóðlífinu. Þeir geta stofnað heimili og byggt sjálfir upp framtíð sína. Þeir geta orðið sinnar gæfu smiðir.

Langvinnt tímabil fullrar atvinnu gerir fólk bjartsýnt. Það lítur jákvæðum augum á þjóðfélagið. Það er reiðubúið til að leggja töluvert að sér til að öðlast þátt í þeim gæðum, sem nútíminn býður upp á.

Svona gott er ástandið hvergi í nágrannalöndunum. Þar ríkir ekki bara dulið atvinnuleysi, heldur líka opið. Þar verða menn að hanga í iðjuleysi á ölkrám eða götuhornum og sjá ekki neina von um breytingu.

Í Danmörku er hugsunin orðin sú í ýmsum þjóðfélagshópum, að æskilegt sé að vera á “sósíalnum”, á atvinnuleysisstyrk. Og Danir hafa meira að segja leyft okkur að flytja út til þeirra þá, sem svona hugsa.

Í Bretlandi eru 12% þjóðarinnar atvinnulaus. Í Liverpool hafa sumar fjölskyldur verið atvinnulausar í þrjár kynslóðir. Og aðeins helmingur þeirra, sem koma úr skóla, hefur von um að fá atvinnu.

Svona mikið og langvinnt atvinnuleysi hefur hörmulegar afleiðingar. Það klýfur þjóðfélagið að endilöngu. Það býr til stétt öreiga, þiggjenda, utangarðsmanna, sem hafa ímugust á þjóðfélaginu og rísa jafnvel gegn því á götum úti.

Sumir hagfræðingar halda því fram, að atvinnuleysi sé nauðsynlegt til að hindra þenslu á vinnumarkaðinum og halda verðbólgu niðri. Þessi kenning ber vott um hættulega einsýni, skort á skilningi á mannlegu eðli.

Þessir hagfræðingar segja líka, að verðbólga þurfi ekki að stuðla að fullri atvinnu, svo sem dæmin sanni frá síðustu árum. Það er rétt, að samhengið verkar bara í aðra áttina, frá fullri atvinnu til verðbólgu, en ekki til baka.

Þessi fyrirvari breytir ekki því, að full atvinna er æskileg og blátt áfram nauðsynleg, þótt hún feli í sér dálítið af duldu atvinnuleysi og þótt hún kosti nokkru meiri verðbólgu en annars væri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið