Eitt síðasta tækifærið

Greinar

Nú eru að verða síðustu forvöð að byrja að fara alveg eftir tillögum fræðimanna um minni sókn í þorskstofninn. Hingað til hefur árleg veiði verið töluvert umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar, síðustu árin yfir hættumörkum, svo að hrun þorskstofnsins blasir nú við.

Nýtingarnefnd fiskistofna hefur lagt til þá reglu, að þorskafli verði á hverju ári ekki meiri en 22% af veiðistofni þorsks. Þar sem veiðistofninn er nú um 600 þúsund tonn, jafngildir þetta tillögu um 130 þúsund tonna þorskveiði á næsta fiskveiðiári. Þetta er raunar reiðarslag.

Á yfirstandandi fiskveiðiári stóð til að veiða 165 þúsund tonn. Veiðin fer hins vegar langt yfir hættumörk, sem eru talin vera 175 þúsund tonn. Hún fer í um það bil 200 þúsund tonn á fiskveiðiárinu og stuðlar eins og veiði fyrri ára að hruni þorskstofns og þorskveiða.

Við höfum búið við það böl í mörg ár, að ráðherra leyfir nokkru meiri veiði en fiskifræðingar mæla með og að síðan verður aflinn í raun töluvert hærri en ráðherrann leyfði. Stafar það einkum af leyfilegum veiðum utan kvóta, sem menn spara sér að reikna með.

Vítahringurinn hefnir sín nú, þegar þjóðin á aðeins tvo kosti, annan slæman og hinn ófæran með öllu. Fyrri kosturinn er að byrja að haga sér eins og menn og hætta að éta útsæðið. Síðari kosturinn er að halda áfram núverandi veiðum, unz þorskveiði leggst senn af með öllu.

Sérstaklega verður að víta þá stjórnmálamenn, sem mestu ráða um sjávarútveg. Þeir hafa leikið sér að því að setja aflahámark, sem er marklaust, af því að hluti aflans er utan útreiknings um hámark. Þannig hafa til dæmis sjávarútvegsráðherrar hagað sér án ábyrgðar.

Lengi hefur verið ljóst þeim, sem vita vilja, að setja þarf miklu strangari skorður við trilluveiðum. Stjórnmálamenn hafa hins vegar glúpnað fyrir frekju og hótunum hagsmunaaðila á því sviði. Það er hluti skýringarinnar á, hversu illa er komið fyrir þorskstofninum.

Enginn skortur er á skottulæknum og töframönnum, sem vilja færa mönnum huggun og sælu á þessu sviði. Þeir eru studdir nokkrum vatnalíffræðingum og veðurfræðingum, sem leika sér að eldi með því að egna óbilgjarnan. Saman ráðast þessir aðilar á fiskifræðina.

Niðurstaðan af þessum ljóta leik er alltaf hin sama: Þar sem fiskifræðin er ónákvæm fræðigrein, er óhætt að fara ekki eftir henni og ævinlega í þá átt að veiða meira en hún mælir með. Þessi óskhyggja er alfa og ómega ofveiðinnar og helzta orsök íslenzku kreppunnar.

Fyrir ári mátti öllum ljóst vera, að leyfilegur afli samkvæmt ákvörðun ráðherra og afli utan kvóta mundu samanlagt fara yfir hættumörk. Á þetta var meðal annars bent hér í blaðinu. Samt ímynduðu menn sér, að niðurstaðan væri upphaf að bjartari tíma í sjávarútvegi.

Enn er bjartsýni á ferð. Þegar fisknýtingarnefnd segir, að bezt sé að veiða ekki meira en 130 þúsund tonn og að hættumörk séu við 175 þúsund tonn, eru ráðherra og hagsmunaaðilar þegar farnir að gæla við hærri töluna og við framhald á veiðum utan skömmtunarkerfisins.

Í mörg ár hafa ráðamenn stjórnmála og sjávarútvegs haft árlegt tækifæri til að líta raunsætt á möguleika líðandi stundar. Þeir hafa á hverju ári fallið á prófinu með því að stuðla að veiðum, sem eru langt umfram markið, sem gefur mestan arð, þegar til langs tíma er litið.

Enn höfum við tækifæri til að snúa af óheillabraut Færeyinga. Við getum enn gripið í taumana og farið niður í 130 þúsund tonn til að tryggja framtíð þorskveiða.

Jónas Kristjánsson

DV