Eitur á eyju.

Greinar

Sérstaða Íslands sem fámenns eyríkis kemur meðal annars fram í, að auðveldara ætti að vera að hamla gegn eiturefnaneyzlu og fást við vandamál, sem henni fylgja. Engan veginn er óhjákvæmilegt, að aukin eiturhörmung í útlöndum þurfi endilega að endurspeglast hér.

Sem dæmi má nefna, að heróín hefur ekki náð neinni fótfestu hér á landi. Sérfræðingur hefur haldið fram, að heróínistar gætu ekki lifað marga daga í Reykjavík. Enda gildir það um alla tíu heróínistana, sem verið hafa á Kleppi, að þeir komu með sjúkdóm sinn frá útlöndum.

Ísland er raunar sagt gósenland fyrir þá, sem vilja rífa sig upp úr óþverra. Fámennið skapar aðhald, veðráttan gerir útigang erfiðan og fjarlægðin frá öðrum löndum gefur meiri vonir um, að unnt sé að halda uppi öflugri vörnum gegn innflutningi en annars staðar.

DV hefur á þessu ári birt viðamikinn greinaflokk um stöðu þessara mála undir yfirskriftinni Eitur á eyju. Upplýsingarnar, sem þar hafa komið fram, benda til, að við þurfum ekki að gefast upp fyrir eitrinu eins og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa meira eða minna gert.

Við getum hert tollgæzlu, ekki aðeins á Keflavíkurflugvelli, heldur einnig í afskekktum höfnum landsins. Við getum eflt starfsemi fíkniefnalögreglunnar, búið henni betri skilyrði og aukið menntun hennar. Við eigum að geta haldið hinum eitraðri efnum niðri á þann hátt.

Vandamálið hverfur svo sem ekki við það. Ungt fólk mun halda áfram að fara til útlanda, þar sem aðhald er minna, eiturverð lægra og veður mildara. Sumt af því mun týnast og sumt koma heim sem sjúkrahúsmatur. Við munum búa við vandann, þátt við flytjum hann út.

Hluti hans er ekki heldur innfluttur, heldur heimatilbúinn. Sérfræðingur hefur haldið fram, að eitur hins svonefnda Hlemmliðs sé fremur fólgið í pillum frá læknum en smygluðu hassi. Aðhald með lyfjagjöfum lækna hefur aukizt, en er samt ekki orðið nógu strangt.

Sem dæmi má nefna, að í fyrra voru tveir læknar sviptir leyfi til að gefa út lyfjaávísanir. Margir telja, að slíku aðhaldi megi beita fyrr og oftar. Ennfremur er líklegt, að fjölga megi eftirritunarskyldum lyfjum, bæta þar til dæmis við valíum og libríum.

Hér á landi flýtur allt í geðlyfjum, svefnlyfjum, róandi lyfjum og megrunarlyfjum. Sumt af þessu á rétt á sér, en samt er nauðsynlegt að herða eftirlit með því, hverjir skrifa þessa lyfseðla og handa hverjum. Sérfræðingar telja þetta alvarlegra vandamál en hassið.

Neyzla á hassi er talin hafa staðið í stað um skeið, ekki vegna skorts á framboði, heldur vegna þess, að hún er minna í tízku en áður. Hins vegar hefur aukizt notkun á amfetamíni og kókaíni, sem eru enn hættulegri. Þjóðfélagið er því enn í varnarstríði.

Ef við stöndum okkur vel í vörninni, má vona, að nýir tímar rísi, þegar ekki verður lengur fínt að nota vímugjafa. Ýmislegt bendir til, að hugarfarsbreyting sé í burðarliðnum og að öflugar varnir okkar geti brúað bilið, unz nýi stíllinn verði ofan á.

Einn viðmælenda blaðsins sagði, að það væri “einfaldlega ekki smart lengur að vera dópaður. Nú vill fólk vera í góðu líkamlegu formi og hugsa skýrt, það tímir ekki að dópa sig”. Þetta er sú hugsun, sem þarf að sigra, sú sem hafnar flótta frá veruleikanum.

Jónas Kristjánsson.

DV