Ekkert að frétta

Greinar

Reykjavíkurborg ákvað á liðnu ári að losa um eignir og minnka þátttöku sína í atvinnulífinu. Minna fór fyrir slíku hjá ríkisstjórninni, sem ætlaði þó að selja fjórðung í Sementsverksmiðjunni og kanna verðgildi eigna Áburðarverksmiðjunnar. Um símann er flest á huldu.

Svokallaðir félagshyggjuflokkar standa að minnkun borgarafskipta af atvinnulífinu og svokölluð hægristjórn stendur að óbreyttum ríkisafskiptum af atvinnulífinu. Þetta sýnir, að hugtök í stjórnmálum geta verið dálítið misvísandi og byrgt mönnum sýn á stöðu mála.

Forsætisráðherra okkar hefur lýst aðdáun sinni á Margréti Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Sú aðdáun nær hvorki til róttækra skoðana frúarinnar á þjóðmálum, né markvissra tilrauna hennar til að nota embætti sitt til að framkvæma þessar skoðanir.

Thatcher minnti á de Gaulle Frakklandsforseta. Hún vildi í senn breyta umhverfi sínu og hafa frumkvæði í því. Fólk getur haft skiptar skoðanir á því, hvort heppilegt sé, að ráðamenn þjóða séu svo athafnasamir. En ljóst er, að íslenzk þjóðmál eru ekki í slíkum farvegi.

Okkar ríkisstjórn vill ekki einu sinni ræða hugsanlega þáttöku okkar í Evrópusambandinu. Hún vill ekki frumkvæði, heldur viðbrögð við gerðum annarra. Þegar samið er í Evrópu um afnám vegabréfaskoðunar, sem yki skoðun íslenzkra vegabréfa, vill hún fá að vera með.

Þannig erum við alltaf að bregðast við frumkvæði annarra. Við verðum fyrir hertu heilbrigðiseftirliti á íslenzkum fiski á landamærum evrópskra ríkja og semjum því um að fá að taka þetta eftirlit að okkur á upprunastaðnum. Við breytum líka sláturhúsum að evrópskri kröfu.

Meðan við höfðum tækifærið vildum við ekki vera eins og Lúxemborgarar, sem taka þátt í stjórn Evrópusambandsins. Við viljum hins vegar hafa her manns við að þýða evrópskar reglugerðir á íslenzku. Við viljum laga okkur að breyttum aðstæðum í umhverfi okkar.

Frumkvæðisleysið í sölu ríkisfyrirtækja og málefnum Evrópu eru greinar af sama meiði kyrrstöðustefnu. Aðrar greinar hennar eru kvótakerfið í sjávarútvegi og ríkisrekstur landbúnaðar. Í öllum þessum tilvikum vill ríkisstjórnin óbreytt ástand, sé þess nokkur kostur.

Forsætisráðherra og ríkisstjórn hafa ekki fundið þessa stefnu upp. Hún er ekkert eyland utan veruleika þjóðarinnar. Kyrrstöðustefnan er í samræmi við þjóðarvilja, sem er ekki gefinn fyrir breytingar og vill til dæmis hverja þjóðarsáttina á fætur annarri í kjaramálum.

Öll nýbreytni í atvinnulífinu er eins konar fiskeldi eða loðdýrarækt og snýst að minnsta kosti um landbúnað og sjávarútveg. Stóriðja kemur öll að utan og lifir eigin lífi utan íslenzks veruleika. Ríkisvaldið og símafyrirtæki þess leggja steina í götu athafna í tölvuupplýsingum.

Um allt þetta er eins konar þjóðarsátt íhaldssams meirihluta þjóðarinnar, sem vill ekki láta trufla kyrrstöðu sína. Hann vill mikil ríkisafskipti, mikið skipulag að ofan, mikið af reglugerðum, mikið af réttlæti, mikla dreifingu auðsins. Hann vill frið um það, sem fyrir er.

Þetta hefur jákvæðar hliðar, til dæmis höfum við náð að láta verðfestu leysa verðbólgu af hólmi. Þetta hefur neikvæðar hliðar, til dæmis er enn verið að hækka opinber gjöld skattborgaranna um þessi áramót. Þetta eru allt einkenni þjóðfélags í lygnum polli kyrrstöðunnar.

Í grundvallaratriðum var ekkert að frétta af þjóðinni á liðnu ári og ekki er við neinum fréttum að búast af henni á þessu ári. Fólk fæðist bara, lifir og deyr.

Jónas Kristjánsson

DV