Talsmenn landbúnaðarins halda fram, að samdrátturinn í fyrra af völdum kvótakerfis og fóðurbætisskatts hafi verið nægur. Nú sé óhætt að stinga við fótum og stefna að óbreyttri framleiðslu með fullum útflutningsuppbótum.
Hákon Sigurgrímsson setti fram þessa hörðu stefnu á ráðstefnu framsóknarmanna um landbúnað fyrir stuttu. Samkvæmt henni var nóg að koma framleiðslunni niður í sem svarar umsömdu gjaldþoli skattgreiðenda til útflutningsuppbóta.
Af þessu má ráða, að eins árs samdráttur í kindakjötsframleiðslu um 13% og í mjólkurframleiðslu um 11% var aðeins stund milli stríða. Eingöngu var stefnt að því að létta tjóni offramleiðslunnar af bændum, en ekki af skattgreiðendum.
Um leið viðurkenndi Hákon, að ekki þurfi nema 1.300 mjólkurbú og 1.250 sauðfjárbú til að anna því, sem hann telur vera innlendan markað. Samtals eru þetta 2.550 bú af þeim 4.000, sem nú eru starfrækt í hefðbundnu greinunum tveimur.
Í rauninni eru þetta of háar tölur. Hákon miðar við gervimarkað, sem búinn er til með niðurgreiðslum, er beina neyzlu almennings til kindakjöts og mjólkurvara frá öðrum afurðum. Án skjóls niðurgreiðslna væri markaðurinn mun minni.
Ef miðað væri við raunverulegar, en ekki niðurgreiðslubelgdar innanlandsþarfir fyrir kjöt og mjólkurvörur, væri þörf fyrir minna en helming í stað rúms helmings af þeim búum, sem nú eru starfrækt í þessum greinum.
Þar á ofan taka talsmenn landbúnaðar aldrei tillit til munarins á greinum, sem selja afurðir sínar á alþjóð- legum kaupenda- og seljendamarkaði. Skynsemin segir, að þjóðir eigi að haga framleiðslu sinni með tilliti til munarins.
Á alþjóðlegum markaði eru landbúnaðarafurðir hinar dæmigerðu offramleiðsluvörur, þar sem kaupendur, en ekki seljendur, ráða verðinu. Við slíkar aðstæður er betra að vera kaupandi, hvort sem litið er til langs eða skamms tíma.
Við verðum að sæta því að fá aðeins fyrir útflutningskostnaði af landbúnaðarvörum okkar. Sjálfan framleiðslukostnaðinn allan verða skattgreiðendur að borga með útflutningsuppbótum. Við erum röngu megin við borðið.
Við getum ár eftir ár fengið útlent smjör á verði, sem hingað komið mundi aðeins nema fjórðungi eða fimmtungi innlends framleiðslukostnaðarverðs. Slíkt mundi létta miklum byrðum af neytendum og ríkissjóði.
Hin hagfræðilega rétta stefna er að framleiða minna en fyrir innanlandaþörfum af þeim vörum, sem á alþjóðlegum markaði eru fremur gefnar en seldar til að losna við þær. Með þeirri stefnu værum við réttu megin við hið alþjóðlega viðskiptaborð.
Menn geta talið sér trú um, að af öryggisástæðum þurfi hér einhverja landbúnaðarframleiðslu til viðbótar fiskveiðum, en sú trú getur ekki rökstutt nema hluta af framleiðslu hefðbundinna búgreina upp í innanlandsþarfir.
Menn geta talið sér trú um, að of mikil röskun sé af flutningi 5% þjóðarinnar til þéttbýlis, þótt hin 95% hafi þegar flutt, flest á þessari öld. En sú trú getur ekki rökstutt nema vissa varfærni í frekara samdrætti.
Sú kenning Hákonar Sigurgrímssonar, að samdrátt hinna hefðbundnu búgreina beri nú að stöðva og halda áfram fullum styrkjum, niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, er hnefahögg í andlit sligaðra neytenda og skattgreiðenda.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið