Ekkert lært endalaust

Greinar

Vesturveldin hafa í þrítugasta skipti á þessu ári sagt Milosevic Serbaforingja, að yfirgangur hans í Kosovo verði ekki þolaður, rétt eins og þau sögðu honum þrjú hundruð sinnum, að yfirgangur hans í Bosníu yrði ekki þolaður. Þetta voru og eru hótanir án innihalds.

Vesturveldin hafa í tíunda skipti á þessu ári sagt Milosevic, að hann megi búast við hernaðaríhlutun vegna yfirgangs hans í Kosovo, rétt eins og þau sögðu honum hundrað sinnum, að hann mætti búast við hernaðaríhlutun vegna yfirgangs hans í Bosníu.

Þegar hernaður Serbaforingjans hófst í Kosovo, sögðu fulltrúar Vesturveldanna, að þeir hefðu lært af reynslunni frá Bosníu og mundu grípa í taumana, áður en af hlytust stríðsglæpir og þjóðarmorð. Þrátt fyrir þessa fullyrðingu hafa þeir ekkert lært af reynslunni.

Það er grundvallaratriði í ágreiningi ríkja eins og fólks yfirleitt, að innihaldslausar hótanir duga í mesta lagi einu sinni eða tvisvar, en verða síðan ekki bara gagnslausar með öllu, heldur verri en engar. Slík eru einmitt áhrif sífelldra hótana í garð Serbaforingjans.

Full reynsla er fyrir því, að Milosevic gengur jafnan fram á yztu nöf. Full reynsla er fyrir því, að hann lítur á eftirgjafir af hálfu viðsemjenda sinna sem ávísun á að stíga feti framar. Samskipti við hann eru að þessu leyti mjög svipuð samskiptum við Íraksforingja.

Samskipti Vesturveldanna við Serbíu eru gott dæmi um almennan greindarskort í utanríkisþjónustu og hernaðarstjórn vestrænna ríkja og samtaka þeirra, svo sem Atlantshafsbandalagsins. Þessir aðilar hafa árum saman verið úti að aka og ekkert lært af reynslunni.

Í rauninni eru hótanir hinna greindarskertu fyrst og fremst misheppnuð tilraun til að friða fólk heima fyrir, þar sem almenningur hefur lesið í blöðum um og horft í sjónvarpi á voðaverk Serbaforingjans og manna hanns, fyrst í Króatíu, síðan í Bosníu og loks í Kosovo.

Vesturveldin þurfa að gera upp við sig, hvort þau hafa bein í nefinu til að standa við hótanir sínar. Ef þau hafa það ekki, eiga þau að láta Milosevic í friði og ekki reyna að telja ofsóttu og brottreknu fólki trú um, að einhverrar hjálpar sé að vænta frá lýðræðisríkjum vestursins.

Milosevic stjórnar bláfátækri þjóð, sem býr af hans völdum við þrengri kost með hverju árinu. Til að dreifa huga fólksins frá bágindum þess beitir hann þjóðernislegum órum um Stór-Serbíu og hefndir fyrir meintar misgerðir Tyrkja og annarra fyrir mörgum öldum.

Milosevic hefur tekizt að trylla meira en hálfa þjóð til að styðja útþenslu Serba með þjóðahreinsunum. Þær felast í, að annað fólk er með ofsóknum hrakið á brott, svo að Serbar geti setzt að í staðinn. Þetta tókst að nokkru í Bosníu, þar sem Serbar náðu miklu landi.

Útþensla Serba í Kosovo byrjaði með því, að Milosevic tók sjálfstjórnina af íbúunum og setti landið undir stjórn Serba. Síðan hóf hann menningarlegar ofsóknir gegn íbúunum og loks hernaðarlegar. Þær hafa aukizt í takt við loforð Serbíuforingjans um hið gagnstæða.

Tilgangslaust er að reyna að sveigja Milosevic og hinn tryllta meirihluta Serba til hlýðni með efnahagslegum refsiaðgerðum. Lifibrauð er ekki efst á óskalista fólks, sem hefur það að hugsjón að nauðga fólki, pynda það og drepa til þess að hræða ættingja þess í burtu.

Annaðhvort neyðast Vesturveldin til að kosta flóttamannabúðir í Albaníu fyrir allan þorra íbúa Kosovo eða þau hunzkast til að fara í síðbúið stríð við Serbíu.

Jónas Kristjánsson

DV