Ekki afskrifa ríkisstjórnina.

Greinar

Sagt hefur verið bæði í gamni og alvöru, að hið eina, sem stjórnarflokkarnir hafi getað og muni geta komið sér saman um, sé að skerða kjör almennings. Það hafi þeim tekizt snemma í þessu stjórnarsamstarfi og ríkisstjórnin sé nú verklaus. Hún geti eins pakkað saman og farið.

Upp á síðkastið hefur fjölgað spám um, að ríkisstjórnin sé feig. Ýmsir frammámenn í Sjálfstæðisflokknum hafa haldið á lofti efasemdum um, að svo íhaldssamur flokkur sem Framsóknarflokkurinn geti staðið að opnun hagkerfisins og öðrum framfaramálum af slíku tagi.

Þessar kvartanir hafa svo eflt þá trú margra framsóknarmanna, að lítið sé á sjálfstæðismenn að treysta í stjórnarsamstarfi. Þeir muni hlaupa út undan sér af minnsta tilefni. Þess vegna sé eins gott að búa sig undir breytt stjórnarmynztur eða nýjar kosningar.

Hugleiðingar af þessu tagi víkja hjá þeirri staðreynd, að ríkisstjórnin siglir tiltölulega sléttan sjó um þessar mundir og að haustblikurnar eru ekki eins uggvænlegar og sumir vilja vera láta. Þótt fylgi ríkisstjórnarinnar hafi minnkað, er hún enn í öflugum meirihluta.

Þjóðin hafði í vetur skilning á, að kjaraskerðing væri nauðsynleg. Hún viðurkenndi í raun, að hún hafði árum saman og í vaxandi mæli lifað um efni fram. Þess vegna tókst ríkisstjórninni að skerða lífskjörin án þess að spilla vinnufriði í landinu.

Eftir veturinn sér fólk ýmsar jákvæðar hliðar á kjaraskerðingunni. Það var orðið þreytt á óðaverðbólgunni og fagnar hinu tiltölulega stöðuga ástandi, sem nú ríkir. Það tekur líka eftir, að full atvinna hefur haldizt í landinu, einmitt vegna kjaraskerðingarinnar.

Og nú eru kröfur samtaka launafólks ekki þess eðlis, að spá þurfi harkalegu uppgjöri í haust. Kröfurnar felast í stórum dráttum í, að fólk vill vernda þau skertu kjör, sem samið var um í vetur. Það vill einfaldlega, að ekki sé haldið áfram að skerða lífskjörin.

Að baki liggur sú staðreynd, að þjóðin er að þessu sinni þolinmóð. Hún vill gefa ríkisstjórninni tækifæri til að hafa lengri tíma til að nýta lífskjaraskerðinguna til þeirrar sóknar í efnahagsmálum, er dugi til að leggja grundvöll að endurbættum lífskjörum.

Þjóðin veit vel, að Japanir og sumir aðrir hafa byggt sig upp efnahagslega með því að hafa lífskjörin fyrst lág til að efla samkeppnisaðstöðuna. Síðan hafa þeir notað efnahagssóknina til að búa til traustan grunn að hraðbatnandi lífskjörum í landinu.

Flestir aðrir en öfundsjúkir alþýðubandalagsmenn átta sig á, að gott er, að fyrirtækin græði, svo að þau geti eflzt að tækni og hagkvæmni og fært út kvíarnar. Það er einmitt vegna þessa, að nú helzt full atvinna í landinu og að mikil gróska er á ýmsum sviðum.

Hitt er svo laukrétt, að ríkisstjórnin hefur lítið gert til að flýta fyrir endurreisninni. Hún heldur dauðahaldi í hinn hefðbundna landbúnað. Henni hefur ekki tekizt að fækka fiskiskipum til að endurreisa arðsemi sjávarútvegsins. Hún á lítið fé aflögu til stuðnings hinu nýja.

Meðan ríkisstjórnin hjakkar þannig í sama farinu, sjást merki þess, að fólk vill framlengja friðinn, sem hún hefur til að nýta þegar gerða hluti til uppbyggingar. Ríkisstjórnin getur, ef hún vill, þegið þennan frið og komið sér saman um eitthvað fleira en að skerða lífskjörin.

Jónas Kristjánsson.

DV