Ekki bara hópsálir.

Greinar

Eins og önnur flókin þjóðfélög þurfum við mikið af góðum embættismönnum, varðveizlumönnum kerfisins. Þeir þurfa ekki að vera menn athafna og átaka, heldur þjálfaðir í góðu, hnökralausu samstarfi svo að allt gangi sinn vanagang.

Enginn skortur er á slíku fólki, enda hafa skólarnir, alla leið upp í háskóla, frá ómunatíð lagt mesta áherzlu á að framleiða embættismenn, slétta og fellda menn, sem engum vandræðum valda og eru góðir til samstarfs.

Einnig þurfum við mikið af góðum tæknimönnum, sem þekkja vel sérgreinar sínar án þess að vera þar menn nýjunga eða uppfinninga. Þjóðfélag okkar er orðið svo tæknivætt, að sérfræðingar þurfa að vera á hverju strái.

Til skamms tíma skorti sérfræðinga á mörgum sviðum. Það er ört að breytast, enda einstefnir skólakerfið að háskólanámi sem flestra. Straumurinn í Háskóla Íslands er orðinn svo stríður, að skólinn er nánast að springa.

Við erum jafnvel svo lánsöm að vera farin að eignast útgerðartækna, fiskiðnfræðinga og iðnaðarverkfræðinga, auk allra hefðbundnu fræðinganna og embættismannanna. Við stefnum að því að eiga þrautskólaða tæknimenn á öllum sviðum.

Meira að segja Háskóli Íslands, sem lengst af var embættisvígi guðfræðinga, lækna og lögfræðinga, er að verða að tæknistofnun. Hann er farinn að útskrifa lokaprófsmenn í ýmiss konar verkfræði og tækni í stórum stíl. Sem betur fer.

Þannig hefur skólakerfið víkkað svo, að það stefnir ekki lengur eingöngu að framleiðslu deildarstjóra opinberra stofnana, heldur einnig að framleiðslu sérfræðingaliðs fyrir svokallaða starfshópa á vegum ráðuneytanna!

Skólakerfið er kjörið til ræktunar þessara tveggja nytsamlegu manngerða. Það leggur áherzlu á samstarf í hópum. Kennslan er miðuð við þarfir miðjunnar. Til viðbótar er stundum reynt að lyfta upp eftirbátunum.

Hinir, sem eitthvað geta umfram hið venjulega, eru að mestu látnir afskiptalausir. Sumu neistafólki leiðist svo aðgerðaleysið í skólunum, að það hrökklast þaðan brott. Annað lætur skólana draga sig niður í meðalhófið.

Í þessum hópi eru efni í hugvitsmenn, sem gætu hvert orðið þjóðinni meira virði en hundrað embættismenn og tæknimenn. En þeir rekast illa í meðalhjörð og þeim leiðist hópvinna, þar sem enginn ber ábyrgð á neinu.

Við vitum, að hugvitsmenn hafa sumir bylt hag heilla þjóða eða jafnvel allra þjóða jarðar. Við getum reiknað með, að það borgi sig að reyna að rækta þá í skólakerfinu, en samt lyftum við ekki litla fingri.

Í hópnum, sem skólakerfið viðurkennir ekki, eru líka efnin í braskara, mennina, sem hafa lag á að finna smugur og göt og að búa til auð úr engu. Slík efni veslast líka upp í áherzlu skólanna á hópvinnu og meðaltalsmennsku.

Við vitum samt, að þjóðfélag eins og Sovétríkin mundi hrynja, ef ekki væru til braskarar til að útvega í hvelli þessar tíuþúsund skrúfur í dráttarvélar, sem völundarhús kerfisins ræður ekki við að afhenda fyrr en eftir þrjú ár.

Nú þegar við erum að verða birgir af tæknimönnum, til viðbótar gífurlegu framboði embættismanna, væri ekki úr vegi, að skólarnir færu að reyna að stuðla að útvegun hugvitsmanna og braskara, sem eru raunar enn mikilvægari.

Jónas Kristjánsson

DV