Ekki bjóða óeirðum heim

Greinar

Heimskulegt er að bjóða hættunni heim með því að halda hér á landi utanríkisráðherrafund Evrópusambandsins og utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í einum rykk í maí á næsta ári. Hvor fundurinn um sig er ávísun á vandræði, óeirðir og mannfall.

Fjölþjóðlegir yfirstéttarfundir hafa orðið að geigvænlegu vandamáli síðan ráðstefna Heimsviðskiptastofnunarinnar fór út um þúfur í Seattle fyrir tveimur árum. Hámarki náðu ósköpin, þegar Evrópusambandið hélt aðalfund sinn í Gautaborg um miðjan þennan mánuð.

Á þessum tveimur árum hafa mismunandi ófriðleg mótmæli einkennt fundi fjölþjóðlegra stofnana á borð við Alþjóðabankann, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, Davos-auðklúbbinn og Evrópska efnahagsklúbbinn, þar sem fundurinn í Salzburg hófst með óeirðum á sunnudaginn.

Tíðni vandamálsins fer ört vaxandi og er orðið vikulegt. Fyrir tveimur vikum urðu óeirðir og mannfall við fund Evrópusambandsins í Gautaborg. Fyrir viku urðu óeirðir við fund Alþjóðabankans í Barcelona og um þessa helgi við fund Evrópska efnahagsklúbbsins í Salzburg.

Í öllum óeirðaborgum mótmælaöldunnar hefur orðið gífurlegt eignatjón, sem mælt er í milljörðum króna, því að innan um mótmælendur eru róttækir hópar stjórnleysingja. Alls staðar hafa orðið líkamsmeiðingar og í Gautaborg varð lögreglan þremur mönnum að bana.

Svo alvarlegt er ástandið orðið, að Alþjóðabankinn hyggst ekki halda næsta ársþing sitt á neinum sérstökum stað, heldur á netinu. Rætt hefur verið um að halda fundi í óvinsælum fjölþjóðasamtökum um borð í flugmóðurskipum úti á rúmsjó, sem væri sannarlega táknrænt.

Hér á landi eru ekki til neinir innviðir löggæzlu, sem ráða við vandamál af þessu tagi. Hætt er við, að reynslulítið löggæzlufólk fari á taugum og verði til að hella olíu á elda mótmælanna. Sænska lögreglan klúðraði málum sínum í Gautaborg og við gerum varla mikið betur.

Við höfum til dæmis ríkislögreglustjóra, sem er svo fáfróður, að hann telur mótmælendur hafa “að skemmtun sinni eða atvinnu” að hleypa upp fjölþjóðafundum. Hann hefur engan skilning á hinni margvíslegu og fjölbreyttu hugmyndafræði, sem liggur óeirðunum að baki.

Hvort sem mótmælendur eru friðsamlegir eða ófriðlegir, eiga þeir það sameiginlegt að hafa mótmælin hvorki að skemmtun né atvinnu, heldur dauðans alvöru. Að baki mótmælunum er algert vantraust fjölmennra hópa á fjölþjóðamynd hins vestræna þjóðskipulags.

Þetta er sorglegt, því að vestrænt þjóðskipulag er bezta fáanlega þjóðskipulag. Það er auðvitað stórgallað eins og önnur mannana verk. Sérstaklega hafa verið misheppnuð ýmis skilyrði, sem Alþjóðabankinn hefur sett ríkjum þriðja heimsins fyrir vestrænni efnahagsaðstoð.

Vestrænar fjölþjóðastofnanir súpa seyðið af að hafa verið of seinar að átta sig á ýmsum vandamálum, sem hafa gerzt áleitin upp á síðkastið, svo sem spjöll á umhverfi og mannlífi af völdum tillitslausrar efnahagsstarfsemi, einkum af hálfu gírugra fjölþjóðafyrirtækja.

Í öllum fjölþjóðastofnunum vita menn, að Ísland er fámennt og friðsamt ríki, sem getur ekki tekið þátt í átaki vestrænnar yfirstéttar í að sanna, að kerfið gangi sinn vanagang, þrátt fyrir aðgerðir mótmælenda. Íslandi yrði fyrirgefið, þótt það segði pass með sín lélegu spil.

Ef ráðamenn landsins þrjózkast við að bjóða hættunni heim, taka þeir um leið á sig siðferðilega ábyrgð af vandræðum, sem þeir geta engan veginn staðið undir.

Jónas Kristjánsson

DV