Observer í morgun var barmafullur af mikilvægum greinum um falsaðar skýrslur forsætisráðherra Bretlands um meint gereyðingarvopn Íraks. Í aðalgrein blaðsins telja Kamal Ahmed og Gaby Hinsliff, að forsætisráðuneytið hafi ákveðið að játa mistök í tengslum við síðari skýrsluna, sem var uppskrift úr þrettán ára gamalli skólaritgerð frá Kaliforníu. Fyrri skýrslan hafi hins vegar að mestu verið óbreytt eins og hún kom frá leyniþjónustunni. Undir niðri geisar nú styrjöld milli ráðuneytisins og leyniþjónustunnar um, hvor aðilinn hafi falsað upplýsingarnar í fyrri skýrslunni. Hvor aðili um sig er að reyna að bjarga sínu skinni á kostnað hins.