Ekki einir í heiminum

Greinar

Eftir íslenzku þingkosningarnar var í nokkrum japönskum dagblöðum á ensku hægt að fylgjast daglega með úrslitum og stjórnarmyndunartilraunum. Þetta var ekki hægt í bandarísku dagblaði, sem þó er gefið út fyrir fjölþjóðamarkað, International Herald Tribune.

Þetta stafar ekki af, að dagblaðið sé svo lélegt, heldur af þröngum sjóndeildarhring Bandaríkjamanna. Þar eru erlendar fréttir fjölþjóðafréttir og aðrar fréttir, er varða hagsmuni Bandaríkjanna, en ekki fréttir, sem eru bundnar við einstök lönd, svo sem kosningar á Íslandi.

Þeir, sem eru staddir í Japan og hafa áhuga á evrópskum íþróttum, geta fylgzt með þeim í hinum enskskrifuðu dagblöðum þar. Þeir geta það miklu síður í bandaríska alþjóðablaðinu International Herald Tribune, sem er upptekið af amerískum hornabolta og öðru slíku.

Þessi mismunur stafar af, að Japanir líta ekki á sig sem sjálft mannkynið, heldur íbúa eyjar út í hafi, háða umheiminum á ýmsa vegu. Þetta gera Íslendinga líka og þess vegna eru íslenzkir fjölmiðlar fullir af erlendum fréttum, sem hvorki varða Ísland beint eða óbeint.

Af framgöngu Bandaríkjamanna í útlöndum má sjá, að sumir þeirra eru beinlínis hneykslaðir, ef starfsfólk í erlendum ferðaiðnaði, svo sem á flugvöllum í Japan, getur ekki gert sig skiljanlegt á ensku. Þeir gera beinlínis kröfu til þess, að viðmælendur sínir tali á ensku.

Þessi sjálfsmiðjun Bandaríkjamanna veldur miklum erfiðleikum. Fulltrúar landsins læra ekki erlend tungumál og vita því minna en aðrir um hugsanir og skoðanir fólks í öðrum löndum. Þess vegna misreiknar bandarísk utanríkisþjónusta útlendinga hvað eftir annað.

Bandaríkjaforseti og bandaríska utanríkisráðuneytið byggðu á sínum tíma upp Saddam Hussein Íraksforseta sem mótvægi við erkiklerkana í Íran. Þegar hann tapaði Persaflóastríðinu vildu Bandaríkjamenn ekki eiga á hættu að Kúrdar og sjítar tækju völd í Írak.

Þess vegna var 700 skriðdrekum, 1500 brynbílum og öðrum stríðstólum sleppt úr herkví bandamanna, gegn vilja Frakka og Breta. Þessi vopn réðu úrslitum um, að Saddam Hussein tókst að brjóta uppreisnarmenn á bak aftur og efna til harmleiksins á svæðum Kúrda og sjíta.

Bush Bandaríkjaforseti var um tíma sendiherra í Kína og hefur síðan talið sér trú um, að hann hefði sérstakt vit á málefnum Kína. Afleiðingin er sú, að hinir elliæru glæpamenn, sem ráða ríkjum þar í landi, njóta beztu kjara og velvildar í viðskiptum við Bandaríkin.

Ceaucescu Rúmeníuforseti var annar vildarvinur Bandaríkjanna og naut hinna sömu reglna um beztu kjör í viðskiptum. Það var ekki fyrr en Rúmenar tóku Ceaucescu af lífi, að bandarísk stjórnvöld áttuðu sig á, hvernig fólk hugsaði í þessu fjarlæga landi.

Gorbatsjov hefur lengi verið í náðinni hjá Bandaríkjastjórn, þótt auðvelt sé að sjá, að hann skilur ekkert í efnahagsmálum og hefur sama sem engan stuðning almennings í Sovétríkjunum. Stjórn hans er dæmd til að mistakast að stemma stigu við hruni Sovétríkjanna.

Bandaríkjamenn urðu að hrökklast við illan leik frá Vietnam. Þeir urðu líka að hrökklast frá Líbanon. Nú hefur þeim tekizt að breyta sigri bandamanna í gífurlegan harmleik, sem mun árum og áratugum saman varpa miklum skugga á stjórnarferil George Bush forseta.

Slíkum vandræðum linnir ekki fyrr en Bandaríkjamenn hætta að líta á sig sem mannkynið og byrja að skoða sjálfa sig sem aðila að samfélagi þjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV