Ekki er sama, hvað starfað er.

Greinar

Falskar tölur opinberra stofnana um framleiðni í atvinnugreinum landsins hafa dregið úr möguleikum raunsæs mats á gildi greinanna fyrir þjóðina. Sérstaklega hefur skort rétt reiknaðar tölur um framleiðni einstakra greina.

Tölur um framleiðni landbúnaðar hafa til dæmis verið byggðar á söluverði afurða hans hér innanlands á vernduðum markaði innflutningsbanns, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Slíkar tölur eru greinilega út í loftið.

Hins vegar er unnt að meta framlag einstakra atvinnugreina til þjóðarbúsins, ef miðað er við raunverulegt markaðsverð. Það er verðið, er gildir á markaði, sem ekki er verndaður og falsaður. Það er alþjóðlega markaðsverðið.

Ingjaldur Hannibalsson, hagfræðingur Félags íslenzkra iðnrekenda, lagði fram nýstárlega framleiðnireikninga á ráðstefnu um atvinnumál höfuðborgarsvæðisins í sumar. Þá reikninga byggði hann á heimsmarkaðsverði.

Sú viðmiðun er rétt, eins og bezt sést af, að við kaupum á heimsmarkaðsverði þær vörur, sem við viljum og fáum að nota frá útlöndum. Sömuleiðis seljum við á heimsmarkaðsverði þær vörur, sem við notum til að afla gjaldeyris.

Ingjaldur gengur lengra í útreikningum sínum. Hann metur kostnað við vinnuafl, hráefni, orku og -fjármagn á einn mælikvarða, reiknaðan í ársverkum sem tilkostnað atvinnugreinanna, útgerðarkostnaðinn, sem deilist í virðisaukann.

Að þeirri deilingu lokinni kemur í ljós, að í fiskveiðum er virðisaukinn á hvert ársverk, það er framleiðnin, 6,3 í fiskveiðum, 3,4 í fiskvinnslu, 2,9 í iðnaði og 1,2 í landbúnaði. Þessar tölur sýna gífurlegan mismun atvinnuveganna.

Af tölunum má sjá, að framleiðni í fiskveiðum er tvöfalt meiri en í fiskvinnslu og iðnaði og rúmlega fimm sinnum meiri en í landbúnaði, – að fiskveiðar hafa haldið uppi þessu þjóðfélagi og landbúnaður hefur haldið því niðri.

Því miður getum við ekki notfært okkur að fullu þennan hluta niðurstöðunnar, af því að þegar hefur verið náð fullri nýtingu og sumpart ofnýtingu fiskistofna. Við getum ekki, þótt við vildum, aukið fiskveiðar frá því, sem nú er.

Þetta reyna stjórnvöld þó með því að leyfa of stóran og stækkandi fiskiskipaflota. Þar með er verið að draga framleiðni fiskveiða niður á stig annarra atvinnugreina, því að samanlagður útgerðarkostnaður vex, en afli ekki.

Um fiskvinnslu gildir hið sama og um fiskveiðar, að hún er háð takmörkuðu aflamagni. Að þessum tveimur greinum frágengnum er því ekki um annað að ræða en að beina sjónum að iðnaði sem vaxtargrein framtíðarinnar hér á landi.

Sagt hefur verið, að iðnaðurinn þurfi að geta tekið við nærri þúsund manns til viðbótar á hverju ári til að tryggja fulla atvinnu í landinu. Í raun hefur iðnaðurinn að undanförnu rétt haldið hluta sínum af heildarmannafla.

Stjórnvöld hafa nærri ekkert gert til að stuðla að iðnaði. Á mörgum sviðum nýtur hann verri kjara en aðrar greinar. Skólakerfið er ekki miðað við, að iðnaðar sé þörf. Og lítil aðstoð fæst við vöruþróun og innflutning tækniþekkingar.

Af tölum Ingjalds má svo sjá, að landbúnaðurinn er hrikalegur baggi, sem heldur niðri lífskjörum þjóðarinnar og varpar skugga á framtíð hennar með því að soga til sín mannafla og fjármagn, sem betur ætti heima í iðnvæðingu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið